Fastir pennar

102 Reykjavík

Steinunn Stefánsdóttir skrifar
Sextán þúsund íbúðir þarf til að mæta eftirspurn eftir leiguíbúðum á næstu árum ef marka má skýrslu sem Capacent vann fyrir Reykjavíkurborg og ber heitið Staða, horfur og möguleikar á húsnæðisleigumarkaði árið 2011. Eftirspurnin gefur líka til kynna að þrettán þúsund þessara íbúða þurfi að vera á höfuðborgarsvæðinu og af þeim langflestar í sjálfri höfuðborginni.

Skýrslan er byggð á spurningakönnun þar sem lagðar voru fram spurningar í tengslum við þörf fyrir íbúðarhúsnæði. Niðurstaðan er að þörfin á leiguhúsnæði sé afar brýn því ef aðeins er horft til næstu þriggja ára vantar tæplega níu þúsund íbúðir bara á höfuðborgarsvæðinu.

Hlutfall leigjenda er mun lægra hér en bæði í Danmörku og Svíþjóð en nokkuð hærra en í Noregi. Könnunin sýnir að 70 prósent fleiri Íslendinga vilja búa í leiguíbúð en nú búa í slíkum íbúðum.

Í Reykjavík eru nú rétt innan við tíu þúsund leiguíbúðir. Því þarf að tvöfalda fjölda leiguíbúða til að mæta þörf á næstu þremur árum og gera enn betur sé litið til lengri tíma. Það kemur einnig í ljós að fólk vill búa vestarlega í borginni. Póstnúmer 101 er vinsælast og á eftir fylgja póstnúmer 105 og 107.

Forseti borgarstjórnar segir í viðtali í blaðinu í dag að borgin hyggist hefjast handa strax á næsta ári við að mæta þessari eftirspurn. Markmiðið er að auka fjölbreytni húsnæðisvalkosta og á að taka mið af því að eftirspurnin er eftir húsnæði vestarlega í borginni. Að sögn Dags hefur borgin augastað á byggingarreitum í þessum borgarhluta og hyggst leita leiða til þess að hægt verði að byggja þar upp leiguhúsnæði.

Í þessu samhengi er rétt að minna borgaryfirvöld á að samkvæmt gildandi aðalskipulagi munu á næstu tólf árum heldur betur bætast við byggingarlóðir á því svæði þar sem fólk vill helst búa, í Vatnsmýrinni þar sem nú er flugvöllur. Önnur flugbrautin á að hverfa eftir aðeins fjögur ár, árið 2016, sú braut sem endar um það bil við suðurenda Reykjavíkurtjarnar. Átta árum síðar, árið 2024, á allur flugrekstur að vera farinn úr Vatnsmýri.

Hins vegar er staðan sú að þrátt fyrir að þetta skipulag sé í gildi hefur lítið verið aðhafst hvort heldur til undirbúnings þess að flytja innanlandsflugið annað eða að búa Vatnsmýrarlandið undir nýtt framtíðarhlutverk. Markvisst virðist hafa verið unnið að því að gleyma metnaðarfullri samkeppni um skipulag Vatnsmýrar sem kynnt var með heilmiklum lúðrablæstri fyrir tæpum þremur árum. Ekki hefur heldur verið unnið að nauðsynlegum samgönguæðum að og frá svæðinu og skemmst er að minnast þess að litlu munaði að ráðist yrði í byggingu nýrrar flugstöðvar, undir dulnefninu samgöngumiðstöð, í Vatnsmýri.

Það liggur fyrir að íbúum Reykjavíkur mun áfram fjölga. Því er brýnt að skipuleggja til langs tíma og vinna í samræmi við það skipulag. Hugmyndir borgaryfirvalda um uppbyggingu leiguhúsnæðis eru góðra gjalda verðar en menn verða að fara að snúa sér að stóru myndinni í skipulagsmálum.






×