Körfubolti

Kjarnorkuvetur í NBA: Við búum bara til nýja deild

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Billy Hunter og Derek Fisher Gefa ekkert eftir í NBA-deilunni.Mynd/ap
Billy Hunter og Derek Fisher Gefa ekkert eftir í NBA-deilunni.Mynd/ap
Billy Hunter, framkvæmdastjóri NBA-leikmannasamtakanna sem voru leyst upp í byrjun síðustu viku, hefur talað um þann möguleika að NBA-leikmennirnir taki sig saman og stofni bara nýja deild. Kjarnorkuveturinn er hafinn í NBA-deildinni eftir að leikmennirnir ákváðu að fara með deiluna í réttarsalinn og samningarviðræður við eigendur NBA-liðanna fóru í algjört frost.

„Kannski getum við bara búið til nýja deild. Við verðum ekki í Madison Square Garden en getum ef til vill spilað á heimavelli St John’s-skólans,“ sagði Billy Hunter.

Amare Stoudemire, leikmaður New York Knicks, talaði á sömu nótum fyrir nokkru. „Við skulum sjá til hvernig þetta verkbann þróast. Ef það tekur eitt til tvö ár verðum við bara að stofna nýja deild,“ sagði Stoudemire.

Ekkert kom úr fundi Davids Stern með eigendunum í fyrradag, en það þarf mikið til að stofna nýja deild og ekki er bara nóg að redda lausum íþróttahúsum. Orð Hunters og Stoudemires verða því ekki tekin alvarlega eins og er en það gæti breyst dragist verkbannið á langinn.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×