Lífið

Gervais býður tvo fyrir einn

Ricky Gervais hefur boðið framleiðendum Golden Globe og Óskarsins svokallað tvo fyrir einn-tilboð, það sé nefnilega lítið mál fyrir hann að vera kynnir á báðum verðlaunahátíðunum. Eins og komið hefur fram í fjölmiðlum er Eddie Murphy hættur við að vera kynnir á Óskarnum eftir að leikstjórinn Brett Ratner hætti við að leikstýra hátíðinni. Ratner hafði þá orðið uppvís að meiðandi ummælum um samkynhneigða.

Fjölmiðlar í Bandaríkjunum fóru því strax á stúfana og nafn Gervais var eitt þeirra fyrstu sem nefnd voru. Gervais sagðist vel geta hugsað sér að vera kynnir á báðum hátíðunum. „Ég verð hvort eð er í bænum vegna Golden Globe," er haft eftir Gervais í bandarískum fjölmiðlum. Gervais sló eftirminnilega í gegn á síðustu Golden Globe-hátíð þegar hann gerði óspart grín að nánast öllum í Hollywood við misjafnar undirtektir stjarnanna en góðar undirtektir áhorfenda.

Gervais er síður en svo eina nafnið sem hefur verið nefnt. Billy Crystal er orðaður við endurkomu á Óskarssviðið og þá hafa sjálfir Prúðuleikararnir verið nefndir sem líklegir arftakar Murphys.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.