Fastir pennar

Hvar, hvenær og hvernig skal stunda kynlíf

Sigga Dögg skrifar
Spurning 1

Ég er með smá áhyggjur sem tengjast kviðverk og kynlífi. Síðast þegar ég fór til kvensjúkdómalæknis var mér sagt að allt væri í lagi, en núna er ég farin að finna fyrir verkjum í ákveðnum stellingum og finnst best að gera „trúbbann" því þá finn ég minna til.



Nú veit ég ekki hvort þetta er alveg eðlilegt eða hvort ég ætti að hafa áhyggjur og drífa mig í aðra skoðun?



Svar:

Það er erfitt að svara þér án ítarlegri upplýsinga, líkt og hvernig sársaukinn lýsir sér, en byggt á því sem þú gefur þá hef ég nokkrar tilgátur.

Þú gætir verið með aftursveigt leg eða viðkvæman legháls. Þá eru sumar stellingar þægilegri en aðrar, sérstaklega þær sem þú getur stjórnað dýpt limsins inn í leggöng. Kvensjúkdómalæknir getur skoðað legu legsins. Ég hvet þig til að panta annan tíma og ef læknirinn finnur ekki skýringu á þessum verk gæti verið ráðlagt að panta tíma hjá kynfræðingi.



Spurning 2

Nokkrir hlutir hafa verið mér ofarlega í huga undanfarið og langar mig að vita þína skoðun á þeim málum.

Mér hefur oft fundist skrítið hvað það er sjálfgefið að eftir hjónaband sé ekkert kynlíf. Eins og að um leið og hringarnir fari á fingurna hverfi tilhugalífið. Konum er sagt að fá sér titrara og mönnum að njóta strippbúlla.

Einnig langar mig að vita hvaðan höfuðverkurinn mikli kemur. Það er oft fjallað um það í kvikmyndum að konan neiti kynlífi og beri fyrir sig höfuðverk, eða þá noti höfnunina sem refsingu. Enn fremur brandarinn um að ef maður er pirraður eða það gangi ekki eitthvað hjá honum þá sé konan ekki að „gefa honum nóg".


Svar:

Báðir „brandararnir" sem þú vísar í eiga sér stoð í raunveruleikanum og eru í raun tilvísun til þess sem oft gerist í langtímasamböndum. Þegar hiti lostans sem einkennir upphaf sambandsins kulnar þá fer kynlíf oft í fastari skorður. Báðir aðilar verða öruggari innan sambandsins og kynlíf fer að snúast um innileika og tjáningu á honum frekar en hömlulausan losta.

Þegar sambandið vex og parið hefur sambúð og eignast fjölskyldu verður tími oft af skornum skammti, forgangsröðunin breytist og kynlífið gleymist.

Oftar en ekki hallar á konuna þegar kemur að heimilisverkum og uppeldi og þreyta kemur fæstum í stuð og það getur því verið ein möguleg skýring á „höfuðverknum". Ósamræmi í tíðni og væntingum til kynlífs er eitt af helstu kynlífsvandamálunum sem pör leita eftir aðstoð við. Sumir kjósa gæði fram yfir tíðni og aðrir öfugt. Það er gömul mýta að halda að karlar kjósi tíðni fram yfir gæði eða að þeir neiti konunni ekki um kynlíf. Pör þurfa að koma sér saman um kynlíf; hvenær, hvar og hvernig. Það kann að hljóma órómantískt en þau pör sem ekki ræða þessi mál eru líkleg til að lenda í árekstrum.



Sendu Siggu Dögg póst með spurningum eða óskum um umfjöllunarefni. Netfangið er kynlif@frettabladid.is






×