Fastir pennar

Vald og virðing

Jónína Michaelsdóttir skrifar
Þrátt fyrir landhelgisbaráttuna höfum við lengst af verið í góðum tengslum og viðskiptum við Breta og Bandaríkjamenn. Þegar Bretar hertóku Ísland 10. maí 1940, vöknuðu sumir við framandi flugvélarhljóð í vornóttinni. Borgarstjórinn í Reykjavík, sem var fárveikur, leitaðist við að setjast upp og kallaði á dóttur sína: „Hvaða merki er á flugvélinni? Hverjir eru þetta?“ Hún stóð við gluggann og sagði eftir smástund: „Þetta eru Bretar.“ Fargi var létt af borgarstjóranum sem sagði um leið og hann hneig aftur niður á koddann: „Guði sé lof, Guði sé lof!“ Allir vissu hvers var að vænta ef þetta hefðu verið Þjóðverjar.

SamningarÁri síðar fóru flestir bresku hermennirnir, en mæltust til þess við Bandaríkjamenn að þeir tækju við. Í júlíbyrjun gerði ríkisstjórn Íslands herverndarsamning við Bandaríkjamenn. Þar með lauk hernáminu í raun. Í apríl 1947 yfirgáfu síðustu hermennirnir landið, í samræmi við Keflavíkursamninginn, sem Ólafur Thors gerði við Bandaríkjamenn.

Árið 1949 gekk Ísland í Atlandshafsbandalagið og tveimur árum síðar er gerður samningur um hervernd milli Íslendinga og Bandaríkjamanna. Þeir koma hingað 1951 og fara 2006, eins og allir vita. Samskipti okkar við Bandaríkin hafa sem sagt frá upphafi verið byggð á gagnkvæmu trausti. Ekki kúgun eða afskiptasemi. Þangað til núna.

StórmenniÍ yfirlýsingu frá Hvíta húsinu áréttar Barack Obama nú stuðning Bandaríkjastjórnar við hvalveiðibann. Hafnar veiðum í vísindaskyni og fyrirskipar þungar diplómatískar aðgerðir í garð Íslendinga. Um leið og manni finnst forseti Bandaríkjanna ekki vaxa af því að blanda sér persónulega í hótun í garð fámennrar eyþjóðar, hvar sem hún væri í heiminum, þá kann að vera beygur í honum vegna forsetakosninganna á næsta ári. Hann er ekki öruggur með endurkjör. Atkvæði umhverfissinna skipta máli, eins og annarra. Engu að síður er þetta furðulegt.

Gæti maður allrar sanngirni, þá var það eiginlega enn furðulegra þegar sendiherra Bandaríkjanna hér á landi fékk á sínum tíma bréf þess efnis að forseti Íslands hygðist sæma hana fálkaorðunni. Mér er sagt að hún hefði þurft að bera þetta undir sína yfirmenn og fá samþykki þeirra. En á leiðinni til Bessastaða, eflaust uppáklædd og stolt, fær hún símtal frá forsetaskrifstofunni, þar sem henni er sagt að það eigi ekki að sæma hana orðunni. Þetta hafi verið misskilningur.

Þetta er náttúrlega ekki bara gróf móðgun við sendiherrann, heldur bandarísku þjóðina sem hún er fulltrúi fyrir. Svona óvirðing gleymist ekki. Við Íslendingar hefðum ekki tekið vel svona óvirðingu við okkar sendiherra, og þar með íslensku þjóðina.

Hafi þetta verið misskilningur, sem fleiri en ég efast um, þá er Ólafur Ragnar þeirrar gerðar, að ef honum er úthlutuð torfa, gerir hann það að túni áður en við er litið. Og honum var í lófa lagið að leysa þetta mál, hvað sem hver segir. Hann er meira að segja svo snjall, að þó að hann blási á öll fyrri viðmið forsetaembættisins og sé á kafi í pólitík, þá er ekki talað um að hann hafi farið út fyrir rammann, heldur að hann hafi breytt forsetaembættinu.

Þessa dagana situr hann sæll og brosandi fyrir framan myndavélarnar, ýmist með leiðandi manni í Rússlandi eða Kína. Fyrrverandi formaður Alþýðubandalagsins er í góðum félagskap.

Eiginlega er ekki hægt annað en að samgleðjast honum.






×