Bakþankar

Aldrei aftur Útey

Sigurður Árni Þórðarson skrifar
Hvað gera unglingar og ungt fólk í sumarbúðum um mitt sumar? Tala saman, hlæja, ræða málin, njóta lífsins. Og svo er þetta tími upplifana, hrifningar og að verða ástfanginn.

Útey er á einu dásamlegasta svæði Noregs. Eplaakrarnir við Tyrivatnið eru sannarlega heillandi. Systir mín og fjölskylda býr í nágrenninu og bátalægi þeirra er rétt við Útey, sem Verkamannaflokkurinn á. Systir mín fer með gesti sína á þetta svæði unaðar og dásemda. Þegar ég var við bryggjuna í Útey hugsaði ég um hvað svona eyja væri góður vettvangur fyrir lífsmótun fólks til framtíðar.

Svo varð heimsendir í þessari paradís, sem djöfull læddist inn í. Þegar sprengjan sprakk í Ósló héldu flestir, að óður múslimi hefði unnið hryllingsverkið. En hið illa kom ekki að utan heldur að innan. Hinn illi var ekki aðkomumaður heldur innfæddur. Forsætisráðherra Noregs endurómaði amerískan talshátt og sagði verknaðinn vera heigulsverk. Það er rangt því sprenging og fjöldamorð er fremur æði haturs.

Að baki djöfulskapnum er ótti, sem beinist að öllu því sem er öðruvísi: Ótti við aðrar lífsskoðanir, litarhætti, öðruvísi menningu og fólk. Ótti elur af sér hatur og hatur gengur alltaf í lið með dauðanum. Ofbeldið á sér því stefnu, berst gegn opnu samfélagi umhyggju og samhjálpar. Illvirkin eru atlaga gegn framtíð, sem umfaðmar ríkidæmi margra kynþátta og samvinnu menningar, átrúnaðar og fjölbreytileika. Hinn norski fjöldamorðingi er ekki ruglaður byssukall, heldur maður sem fyrirlítur öðruvísi fólk og hatar fjölbreytileika. Hann reynir að fyrirbyggja, að ólíkt fólk með mismunandi trú og sið geti búið saman í friði og jafnvel orðið ástfangið hvert af öðru.

Sprengingin í Ósló og fjöldamorðin vega að gildum, trú, menningu og stefnu norrænna þjóða. Við erum öll Norðmenn þessa sorgardaga. Eigum við að leyfa höggbylgjunni frá Ósló að hræða eða skothríðinni í Útey að beygja okkur? Nei. Mæður og feður, sem gáfu börnum sínum gildi, elsku og framtíð, fóru til að sækja lík barna sinna. Glæpur var unninn á þeim, norsku þjóðinni en líka okkur – öllum. Hatrið réðst gegn ástinni. Látum ekki ungt fólk deyja til einskis, heldur heiðrum það með því að treysta samfélagsfriðinn. Mætum ótta með trausti. Hvikum ekki frá uppeldi fólks til menningarlegrar og trúarlegrar fjölbreytni. Ræðum opinskátt eðli hatursins. Leyfum lífinu að lifa. Til forna var sagt: Aldrei aftur Masada. Gegn hatri nútíma: Aldrei aftur Útey.






×