Útilegumaður deyr Guðmundur Andri Thorsson skrifar 18. júlí 2011 11:00 Andlát Sævars Ciesielski táknar ekki endalok Geirfinns- og Guðmundarmála. Málinu lauk ekki þegar Sævar og nokkur önnur ungmenni játuðu á sig sakir – alls konar sakir, allar þær sakir sem þeim var gert að játa og meira til svo að úr varð ein allsherjar játningaflækja sem þýskur lögreglumaður á eftirlaunum var látinn greiða úr. Málinu lauk ekki heldur þegar þau voru dæmd og því lauk ekki þegar þau voru búin að afplána dóminn: þessu máli lýkur ekki fyrr en það verður tekið upp á ný af réttbærum yfirvöldum og það leitt til lykta á þann hátt að íslenskt samfélag geti horfst í augu við sjálft sig og sagt, áminnt um sannsögli, að þessir tilteknu þegnar þess hafi loksins fengið réttláta málsmeðferð. Andlát Sævars Ciesielski er einungis áminning um að enn grúfir þetta mál yfir okkur óuppgert – enn klórum við okkur í hausnum ráðþrota yfir málinu og eigum erfitt með að sætta okkur við lausn málsins. Hvaða máls? Tveir menn hurfu. Þeir áttu það eitt sameiginlegt að fyrsti stafurinn í nafninu þeirra var G en hafa verið spyrtir saman æ síðan. Annar þeirra var að koma snöggklæddur og ölvaður af balli í Hafnarfirði og sást reika um í vetrarkuldanum á Reykjavíkurveginum að reyna að stöðva bíla – hinn fékk símtal og þurfti aðeins að skreppa en kom aldrei aftur. Þar með lýkur raunverulegri vitneskju okkar um afdrif þessara manna. Engin tengsl voru milli þeirra og ungmennanna sem dæmd voru fyrir að hafa orðið þeim að bana. Engin lík fundust. Engin ástæða fannst. Enginn ásetningur var leiddur í ljós. Engin tengsl fundust milli þessara tveggja mannshvarfa. Engin morðvopn – raunar engin morð; engin sönnun fannst fyrir því að þeim hefði yfirleitt verið ráðinn bani. En það komu sem sé fram játningar eftir einangrun í gæsluvarðhaldi og alls kyns harðræði. DómsmorðÞær játningar sem byggt var á við dómsuppkvaðningu í málinu voru þess eðlis og fengnar fram með þeim hætti að það hlýtur að teljast undrunarefni að þær skuli hafa verið lagðar til grundvallar þegar Hæstiréttur dæmdi ungmennin fyrir manndráp af gáleysi. Til samanburðar má geta þess að nýlega sýknaði Héraðsdómur nokkra menn í svokölluðu Exeter-Holding-máli á þeim forsendum að jafnvel þótt sannað þyki að þeir hafi brotið verklagsreglur við ákvarðanir um útlán bankans liggi ekki fyrir sönnun um að það hafi verið af ásetningi; þessir menn hafi sem sé auðgast um nokkra milljarða á kostnað almennra sparifjáreigenda í ógáti; þetta hafi verið nokkurs konar gróði af gáleysi… Þannig er þeirra réttlæti. Þess nutu Sævar og hin ungmennin aldrei á sínum tíma. Davíð Oddsson, þáverandi forsætisráðherra, tjáði sig býsna afdráttarlaust um þetta í ræðustól Alþingis í október 1998 og ætli þau ummæli svo háttsetts manns í samfélaginu hljóti ekki að teljast það næsta sem Sævar komst því að fá uppreisn æru: „Ég segi það fyrir mig persónulega að mér urðu mikil vonbrigði að Hæstiréttur skyldi ekki séð sig geta haft lagaskilyrði til að taka Geirfinnsmálið upp á nýjan leik. Ég hef fyrir mitt leyti kynnt mér þetta mál rækilega í gegnum tíðina og tel að þar hafi mönnum orðið á í messu í stórkostlegum mæli á nánast öllum stigum málsins. Ég held að þó það hefði verið mjög sársaukafullt fyrir íslenska dómstólakerfið, þá hefði það verið gott og nauðsynlegt, hundahreinsun fyrir okkur ef nota má það óvirðulegt orð, að fara í gegnum það mál allt og með hvaða hætti það var unnið. Þeir sem hafa kynnt sér það mál rækilega geta ekki annað en sagt að þar var víða pottur brotinn […] Það var ekki aðeins eitt dómsmorð framið á allri þessari vegferð, þau voru mörg dómsmorðin sem framin voru á þessari vegferð allri og það er mjög erfitt fyrir okkur að búa við það." Engin fermingarveislaSérstakur saksóknari sem skipaður var við meðferð Hæstaréttar á beiðni Sævars um endurupptöku málsins, Ragnar Hall, sagði háðslega þegar þeirri beiðni var hafnað að þetta væru svo sem ekki neinir kórdrengir sem hefðu verið sóttir í fermingarveislu. Hann átti við að þetta hefðu verið illmenni og þess vegna fengið makleg málagjöld hvað sem sekt liði í þessu tiltekna máli. Þannig var viðhorf valdsins alla tíð: mátulegt á pakkið. Þessir krakkar voru guðslömbin sem tóku á sig syndir heimsins. En þetta var óvart alveg rétt hjá þessum fulltrúa valdsins: Sævari Ciesielski stóð aldrei til boða að gerast kórdrengur. Líf hans var fjarri því að líkjast fermingarveislu – en farmurinn sem hann bar með sér um sína daga var þungur. Hann var hrakinn, smáður og fyrirlitinn frá fyrstu tíð og þurfti að beita klækjum til að komast af. Strax sem barn er hann sendur í útlegð á hið alræmda drengjafangelsi sem rekið var í Breiðavík. Um tvítugt er hann smákrimmi í Reykjavík með listamannsdrauma – langar að að læra kvikmyndagerð. Þá kemst upp um ávísanamisferli af því tagi sem íslenskir smákrimmar sérhæfðu sig í og hinn langi armur laganna læsir krumlum sínum í hann. Hann slapp ekki undan honum fyrr en hann gekk frjáls maður út úr fangelsi mörgum árum síðar. Um hríð barðist hann hetjulega fyrir því að hreinsa nafn sitt og ekki var hægt annað en að dást að elju hans og þreki í þeirri baráttu. En öllum umleitunum hans var hafnað af hinu gráa valdi, og loks gafst hann upp á þessu samfélagi. Undir lokin var hann kominn á þann stað þar sem samfélagið vildi alla tíð hafa hann: utangarðs, orðinn útilegumaður á ný. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Guðmundur Andri Thorsson Mest lesið Bönnum íþróttamót barna fyrir kl. 10 um helgar Diljá Mist Einarsdóttir Skoðun Eru landeigendur við Þjórsá huldufólk? Þorgerður María Þorbjarnardóttir Skoðun Eignarhaldsfélag Ingu og hirðin hennar Davíð Bergmann Skoðun Áskorun til Handknattleikssambands Íslands: Ekki keppa við lið Ísraels um sæti í Evrópumóti kvenna í handbolta í apríl 2025 Hjálmtýr Heiðdal Skoðun Slökkvistarfið Eiríkur Hjálmarsson Skoðun Fæðuöryggi þjóðar, sláum í klárinn, togum í tauminn Helgi Eyleifur Þorvaldsson Skoðun Hvatning til heilbrigðisráðherra Halla Þorvaldsdóttir Skoðun Svar við greininni „Lífsstílslæknar og samsæriskenningar um mettaða fitu“ Hópur lækna Skoðun Verðmætasköpun með hugvitið að vopni Ingvar Hjálmarsson Skoðun Agaleysi í íslenskum skólum - Kennarar þurfa valdið til baka Sigrún Ólöf Ingólfsdóttir Skoðun
Andlát Sævars Ciesielski táknar ekki endalok Geirfinns- og Guðmundarmála. Málinu lauk ekki þegar Sævar og nokkur önnur ungmenni játuðu á sig sakir – alls konar sakir, allar þær sakir sem þeim var gert að játa og meira til svo að úr varð ein allsherjar játningaflækja sem þýskur lögreglumaður á eftirlaunum var látinn greiða úr. Málinu lauk ekki heldur þegar þau voru dæmd og því lauk ekki þegar þau voru búin að afplána dóminn: þessu máli lýkur ekki fyrr en það verður tekið upp á ný af réttbærum yfirvöldum og það leitt til lykta á þann hátt að íslenskt samfélag geti horfst í augu við sjálft sig og sagt, áminnt um sannsögli, að þessir tilteknu þegnar þess hafi loksins fengið réttláta málsmeðferð. Andlát Sævars Ciesielski er einungis áminning um að enn grúfir þetta mál yfir okkur óuppgert – enn klórum við okkur í hausnum ráðþrota yfir málinu og eigum erfitt með að sætta okkur við lausn málsins. Hvaða máls? Tveir menn hurfu. Þeir áttu það eitt sameiginlegt að fyrsti stafurinn í nafninu þeirra var G en hafa verið spyrtir saman æ síðan. Annar þeirra var að koma snöggklæddur og ölvaður af balli í Hafnarfirði og sást reika um í vetrarkuldanum á Reykjavíkurveginum að reyna að stöðva bíla – hinn fékk símtal og þurfti aðeins að skreppa en kom aldrei aftur. Þar með lýkur raunverulegri vitneskju okkar um afdrif þessara manna. Engin tengsl voru milli þeirra og ungmennanna sem dæmd voru fyrir að hafa orðið þeim að bana. Engin lík fundust. Engin ástæða fannst. Enginn ásetningur var leiddur í ljós. Engin tengsl fundust milli þessara tveggja mannshvarfa. Engin morðvopn – raunar engin morð; engin sönnun fannst fyrir því að þeim hefði yfirleitt verið ráðinn bani. En það komu sem sé fram játningar eftir einangrun í gæsluvarðhaldi og alls kyns harðræði. DómsmorðÞær játningar sem byggt var á við dómsuppkvaðningu í málinu voru þess eðlis og fengnar fram með þeim hætti að það hlýtur að teljast undrunarefni að þær skuli hafa verið lagðar til grundvallar þegar Hæstiréttur dæmdi ungmennin fyrir manndráp af gáleysi. Til samanburðar má geta þess að nýlega sýknaði Héraðsdómur nokkra menn í svokölluðu Exeter-Holding-máli á þeim forsendum að jafnvel þótt sannað þyki að þeir hafi brotið verklagsreglur við ákvarðanir um útlán bankans liggi ekki fyrir sönnun um að það hafi verið af ásetningi; þessir menn hafi sem sé auðgast um nokkra milljarða á kostnað almennra sparifjáreigenda í ógáti; þetta hafi verið nokkurs konar gróði af gáleysi… Þannig er þeirra réttlæti. Þess nutu Sævar og hin ungmennin aldrei á sínum tíma. Davíð Oddsson, þáverandi forsætisráðherra, tjáði sig býsna afdráttarlaust um þetta í ræðustól Alþingis í október 1998 og ætli þau ummæli svo háttsetts manns í samfélaginu hljóti ekki að teljast það næsta sem Sævar komst því að fá uppreisn æru: „Ég segi það fyrir mig persónulega að mér urðu mikil vonbrigði að Hæstiréttur skyldi ekki séð sig geta haft lagaskilyrði til að taka Geirfinnsmálið upp á nýjan leik. Ég hef fyrir mitt leyti kynnt mér þetta mál rækilega í gegnum tíðina og tel að þar hafi mönnum orðið á í messu í stórkostlegum mæli á nánast öllum stigum málsins. Ég held að þó það hefði verið mjög sársaukafullt fyrir íslenska dómstólakerfið, þá hefði það verið gott og nauðsynlegt, hundahreinsun fyrir okkur ef nota má það óvirðulegt orð, að fara í gegnum það mál allt og með hvaða hætti það var unnið. Þeir sem hafa kynnt sér það mál rækilega geta ekki annað en sagt að þar var víða pottur brotinn […] Það var ekki aðeins eitt dómsmorð framið á allri þessari vegferð, þau voru mörg dómsmorðin sem framin voru á þessari vegferð allri og það er mjög erfitt fyrir okkur að búa við það." Engin fermingarveislaSérstakur saksóknari sem skipaður var við meðferð Hæstaréttar á beiðni Sævars um endurupptöku málsins, Ragnar Hall, sagði háðslega þegar þeirri beiðni var hafnað að þetta væru svo sem ekki neinir kórdrengir sem hefðu verið sóttir í fermingarveislu. Hann átti við að þetta hefðu verið illmenni og þess vegna fengið makleg málagjöld hvað sem sekt liði í þessu tiltekna máli. Þannig var viðhorf valdsins alla tíð: mátulegt á pakkið. Þessir krakkar voru guðslömbin sem tóku á sig syndir heimsins. En þetta var óvart alveg rétt hjá þessum fulltrúa valdsins: Sævari Ciesielski stóð aldrei til boða að gerast kórdrengur. Líf hans var fjarri því að líkjast fermingarveislu – en farmurinn sem hann bar með sér um sína daga var þungur. Hann var hrakinn, smáður og fyrirlitinn frá fyrstu tíð og þurfti að beita klækjum til að komast af. Strax sem barn er hann sendur í útlegð á hið alræmda drengjafangelsi sem rekið var í Breiðavík. Um tvítugt er hann smákrimmi í Reykjavík með listamannsdrauma – langar að að læra kvikmyndagerð. Þá kemst upp um ávísanamisferli af því tagi sem íslenskir smákrimmar sérhæfðu sig í og hinn langi armur laganna læsir krumlum sínum í hann. Hann slapp ekki undan honum fyrr en hann gekk frjáls maður út úr fangelsi mörgum árum síðar. Um hríð barðist hann hetjulega fyrir því að hreinsa nafn sitt og ekki var hægt annað en að dást að elju hans og þreki í þeirri baráttu. En öllum umleitunum hans var hafnað af hinu gráa valdi, og loks gafst hann upp á þessu samfélagi. Undir lokin var hann kominn á þann stað þar sem samfélagið vildi alla tíð hafa hann: utangarðs, orðinn útilegumaður á ný.
Áskorun til Handknattleikssambands Íslands: Ekki keppa við lið Ísraels um sæti í Evrópumóti kvenna í handbolta í apríl 2025 Hjálmtýr Heiðdal Skoðun
Áskorun til Handknattleikssambands Íslands: Ekki keppa við lið Ísraels um sæti í Evrópumóti kvenna í handbolta í apríl 2025 Hjálmtýr Heiðdal Skoðun