Hetjur óskast Sigurður Árni Þórðarson skrifar 28. júní 2011 11:00 Ég minnist stúlku, sem óð inn í miðjan strákahóp til að verja varnarlausan dreng. Hún sýndi hugrekki. Ég minnist félaga, sem hjólaði í valdakerfi og forkólfa þess vegna þess að honum misbauð óréttlæti. Ég veit um nokkur, sem hafa staðið með fórnarlömbum þrátt fyrir hæðnisglósur og þrýsting. Þau eru hetjur og ég dáist að þeim. Formæður okkar og karlar þeirra höfðu hugmyndir um hvað þyrfti að kenna börnum til lífs og farsældar. Dyggðalistar voru skráðir og lastalistar líka. Sumir urðu til í skugga musteranna, en aðrir á vígvöllum og við líkbörur. Því betur sem ég skoða samfélag okkar, því sannfærðari verð ég um nauðsyn nokkurs konar þjóðræðu um siðvit fyrir framtíð. Skóli og kirkja hafa köllun í því máli og hlutverki að gegna. Við síðustualdamót var gerð könnun á gildum og löstum Íslendinga á þeim tímamótum. Íslendingar töldu sig þá vera duglega, áræðna, opna, réttláta, ræktarsama við þjóðmenningu og land, vera friðsama, umburðarlynda, sjálfstæða og töldu sig líka vera húmorista! Lastamegin var til dæmis agaleysi, neysla, asasótt, efnisdýrkun, meðvirkni, höfðingadýrkun, guðleysi, sýndarsókn, hroki og vinnuþrælkun! Veikleika og styrkleika þarf að tékka reglulega. Hið eftirsóknarverða þarf að nefna og setja í forgang. Engin viska verður til nema einstaklingar og mannfélagið allt ræði gildi sín og viðurkenni hvaða lesti ber að forðast. Er græðgi einhvern tíma góð? Hugrekki er ekki á þessum Íslandslista og virðist orðið fágætt. Eru hetjur sem næst útdauðar? Fáir málsvarar spretta fram þegar á fólk er hallað og það beitt órétti. Enginn skortur er á sýndarmennum eða á fífldirfsku. Í siðklemmum og átökum reynir á fólk. Mér sýnist þorri Íslendinga vera gungur, sem læðast burt eins og hýenur þegar fólk er beitt órétti, vilja ekki ógna eigin öryggi þegar fólk er beitt félagslegu, kynferðislegu og andlegu ofbeldi. Þau eru of fá sem standa víllaus með fórnarlömbum. Af hverju hefur hugprýðin verið gengisfelld? Er það ekki orðið sjúkt samfélag, sem beitir hetjur og málsvara réttlætis einelti og jafnvel þöggun? Hvort ertu gunga eða hugprúð? Það er engin hugdirfska að verja eigið vígi og hagsmuni. En þegar þú stendur við hlið þeirra sem verða fyrir órétti, þorir að fórna eigin hag í þágu hinna niðurþrykktu, kemur dýrmæti þitt í ljós, innræti þitt. Þau sem verja réttlæti og fórna jafnvel eigin öryggi eru okkar dýrmætasta fólk – hinir slípuðu demantar. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Sr. Sigurður Árni Þórðarson Mest lesið Bob Marley og íslenskar kosningar Gísli Hvanndal Jakobsson Skoðun Ég var barnið sem vildi ekki taka í höndina á kennaranum sínum Fida Abu Libdeh Skoðun Örvæntingarfullur maður sker út grasker Þórður Snær Júlíusson Skoðun Sjálfstæðisflokkur hækkar kostnað heimilanna Kristrún Frostadóttir Skoðun Hver ætlar að taka fimmtu vaktina? Ákall til stjórnmálaflokka María Fjóla Harðardóttir,Halla Thoroddsen Skoðun Ölmusuhagkerfið Unnur Rán Reynisdóttir Skoðun Gerum þetta að kosningamáli Ágúst Ólafur Ágústsson Skoðun Eru vaxtarmörkin vandinn? Dóra Björt Guðjónsdóttir Skoðun Glundroði Sjálfstæðisflokksins bitnar á hagstjórn og innviðum Árni Rúnar Þorvaldsson Skoðun Stóri grænþvotturinn Heiðrún Lind Marteinsdóttir Skoðun
Ég minnist stúlku, sem óð inn í miðjan strákahóp til að verja varnarlausan dreng. Hún sýndi hugrekki. Ég minnist félaga, sem hjólaði í valdakerfi og forkólfa þess vegna þess að honum misbauð óréttlæti. Ég veit um nokkur, sem hafa staðið með fórnarlömbum þrátt fyrir hæðnisglósur og þrýsting. Þau eru hetjur og ég dáist að þeim. Formæður okkar og karlar þeirra höfðu hugmyndir um hvað þyrfti að kenna börnum til lífs og farsældar. Dyggðalistar voru skráðir og lastalistar líka. Sumir urðu til í skugga musteranna, en aðrir á vígvöllum og við líkbörur. Því betur sem ég skoða samfélag okkar, því sannfærðari verð ég um nauðsyn nokkurs konar þjóðræðu um siðvit fyrir framtíð. Skóli og kirkja hafa köllun í því máli og hlutverki að gegna. Við síðustualdamót var gerð könnun á gildum og löstum Íslendinga á þeim tímamótum. Íslendingar töldu sig þá vera duglega, áræðna, opna, réttláta, ræktarsama við þjóðmenningu og land, vera friðsama, umburðarlynda, sjálfstæða og töldu sig líka vera húmorista! Lastamegin var til dæmis agaleysi, neysla, asasótt, efnisdýrkun, meðvirkni, höfðingadýrkun, guðleysi, sýndarsókn, hroki og vinnuþrælkun! Veikleika og styrkleika þarf að tékka reglulega. Hið eftirsóknarverða þarf að nefna og setja í forgang. Engin viska verður til nema einstaklingar og mannfélagið allt ræði gildi sín og viðurkenni hvaða lesti ber að forðast. Er græðgi einhvern tíma góð? Hugrekki er ekki á þessum Íslandslista og virðist orðið fágætt. Eru hetjur sem næst útdauðar? Fáir málsvarar spretta fram þegar á fólk er hallað og það beitt órétti. Enginn skortur er á sýndarmennum eða á fífldirfsku. Í siðklemmum og átökum reynir á fólk. Mér sýnist þorri Íslendinga vera gungur, sem læðast burt eins og hýenur þegar fólk er beitt órétti, vilja ekki ógna eigin öryggi þegar fólk er beitt félagslegu, kynferðislegu og andlegu ofbeldi. Þau eru of fá sem standa víllaus með fórnarlömbum. Af hverju hefur hugprýðin verið gengisfelld? Er það ekki orðið sjúkt samfélag, sem beitir hetjur og málsvara réttlætis einelti og jafnvel þöggun? Hvort ertu gunga eða hugprúð? Það er engin hugdirfska að verja eigið vígi og hagsmuni. En þegar þú stendur við hlið þeirra sem verða fyrir órétti, þorir að fórna eigin hag í þágu hinna niðurþrykktu, kemur dýrmæti þitt í ljós, innræti þitt. Þau sem verja réttlæti og fórna jafnvel eigin öryggi eru okkar dýrmætasta fólk – hinir slípuðu demantar.
Hver ætlar að taka fimmtu vaktina? Ákall til stjórnmálaflokka María Fjóla Harðardóttir,Halla Thoroddsen Skoðun
Hver ætlar að taka fimmtu vaktina? Ákall til stjórnmálaflokka María Fjóla Harðardóttir,Halla Thoroddsen Skoðun