Lífið

Ýr fundaði með Barney's

Ýr Þrastardóttir. Mynd/Valli
Ýr Þrastardóttir. Mynd/Valli
Fatahönnuðurinn Ýr Þrastardóttir hefur vakið verðskuldaða athygli fyrir hönnun sína bæði hér heima og úti í heimi. Bandarískt upplýsingafyrirtæki hreifst svo af hönnun Ýrar á RFF-tískuhátíðinni að það hefur boðist til að sjá alfarið um allt sem viðkemur umfjöllun og útliti merkisins.

Ýr er nýkomin heim frá New York þar sem hún dvaldi í þrjár vikur við að kynna sjálfa sig og merki sitt fyrir fólki innan tískuiðnaðarins. Hún fékk meðal annars fund með kaupanda hjá hinni frægu verslun Barney's New York og kaupanda hjá japönsku versluninni Restir.

„Eftir RFF hafði erlent auglýsingateymi samband við mig, en í því var meðal annars fyrrum framkvæmdastjóri nýsköpunarsviðs Gucci Group. Hann er að stofna sitt eigið fyrirtæki, Wardencliff, og það hefur áhuga á að endurgera allt sem viðkemur útliti og ímynd ÝR-merkisins og staðsetja það á meðal dýrari merkjavara," útskýrir Ýr sem er himinlifandi með samstarfið.

Til að kynna merkið enn frekar voru teknar nokkrar myndir hér heima og einnig í New York. Ýr segist alls staðar hafa fengið mjög jákvæð viðbrögð og er meðal annars komin með fjárfesta með sér inn í fyrirtækið.

„Ég stefni á að sýna úti í New York næstu tvö árin þannig að ég mun flytja út núna í haust. Næst á dagskrá er að undirbúa sýningu fyrir haustið þar sem vor/sumarlínan 2012 verður kynnt."- sm

RFF





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.