Verk í vinnslu Ragnheiður Tryggvadóttir skrifar 26. maí 2011 07:00 Ákveðinn hóp fólks mætti kalla forfallna dyttara. Þá sem dunda við að dytta að einhverju öllum stundum og fellur aldrei verk úr hendi. Það sem einkennir þá er ekki endilega rífandi kraftur eða hamagangur við framkvæmdirnar og stundum verður maður varla var við að verið sé að dytta að. En þeir skilja eftir sig óaðfinnanlegt handbragð. Fínpússað yfirborð og rennislétta fleti, mála aldrei út fyrir og muna alltaf eftir að þrífa penslana. Raulandi eitthvað fyrir munni sér eiga þessir forföllnu dyttarar það til að strjúka lófa yfir bekki og borð í leit að misfellum sem þarf að laga. Komi þeir í heimsókn renna þeir á lausar lamir og hallandi hillur og bjóðast til að „dytta að þessu" fyrir þig. Draga skrúfjárn upp úr vasa, eins og það sé eðlilegasti hlutur að taka það með sér hvert sem er, og bauka þetta meðan þú hellir upp á kaffið. Þessi hópur á undantekningarlaust sumarbústað þar sem hægt er að dytta að grindverki, leggja pall, gróðursetja, fúaverja og mála endalaust. Takmarkið er ekki að klára, þetta er eilífðarverkefni sem líf dyttarans snýst um – án þess væri líf hans innantómt. Ég tilheyri ekki þessum hóp en öfunda hann auðvitað. Ég tilheyri öðrum hóp sem kalla mætti forfallna klastrara. Það sem einkennir þá er einmitt hamagangur við framkvæmdir en ekki endilega óaðfinnanlegt handbragð. Þeir mála út fyrir og láta málninguna harðna í penslunum. Klastrarinn hendir sér í verkin, riggar upp milliveggjum, skrúfar upp hillur, málar og lakkar eins fjandinn sé á hælunum á honum. Takmark klastrarans er að klára. Hann sér í hillingum að allt sé tilbúið, klárt og komið í stand svo hann geti hallað sér aftur og notið þess. Hann gerir jafnvel grín að hægagangi dyttarans og skilur ekki þetta dútl. Verkefni klastrarans eru þó verkefni sem aldrei sér fyrir endann á. Þegar eitt verk klárast tekur annað við og þegar því er lokið þarf að endurtaka það sem kláraðist þar á undan, einmitt vegna þess að kastað var til höndum til að byrja með. Fullklárað og tilbúið er ástand sem alltaf er utan seilingar og sá dagur kemur aldrei þar sem hægt er að halla sér aftur. Og á meðan klastrarinn reitir hár sitt yfir lausum gólflistum og sprungnu lakki , andvarpar dyttarinn af ánægju yfir því að hafa eitthvað til að dytta að. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Ragnheiður Tryggvadóttir Mest lesið Bönnum íþróttamót barna fyrir kl. 10 um helgar Diljá Mist Einarsdóttir Skoðun Eignarhaldsfélag Ingu og hirðin hennar Davíð Bergmann Skoðun Hverjir munu búa á Blikastaðalandi? Aldís Stefánsdóttir Skoðun Eru landeigendur við Þjórsá huldufólk? Þorgerður María Þorbjarnardóttir Skoðun Opið bréf til Ingu Sæland Ragnar Erling Hermannsson Skoðun Vatnamálalögin og Hvammsvirkjun: Almannaheill ? Mörður Árnason Skoðun Svar við greininni „Lífsstílslæknar og samsæriskenningar um mettaða fitu“ Hópur lækna Skoðun Spurningar og svör um Evrópumál Jón Baldvin Hannibalsson Skoðun Ekkert samráð – ekkert traust Björg Eva Erlendsdóttir Skoðun Rangfeðranir Sævar Þór Jónsson Skoðun
Ákveðinn hóp fólks mætti kalla forfallna dyttara. Þá sem dunda við að dytta að einhverju öllum stundum og fellur aldrei verk úr hendi. Það sem einkennir þá er ekki endilega rífandi kraftur eða hamagangur við framkvæmdirnar og stundum verður maður varla var við að verið sé að dytta að. En þeir skilja eftir sig óaðfinnanlegt handbragð. Fínpússað yfirborð og rennislétta fleti, mála aldrei út fyrir og muna alltaf eftir að þrífa penslana. Raulandi eitthvað fyrir munni sér eiga þessir forföllnu dyttarar það til að strjúka lófa yfir bekki og borð í leit að misfellum sem þarf að laga. Komi þeir í heimsókn renna þeir á lausar lamir og hallandi hillur og bjóðast til að „dytta að þessu" fyrir þig. Draga skrúfjárn upp úr vasa, eins og það sé eðlilegasti hlutur að taka það með sér hvert sem er, og bauka þetta meðan þú hellir upp á kaffið. Þessi hópur á undantekningarlaust sumarbústað þar sem hægt er að dytta að grindverki, leggja pall, gróðursetja, fúaverja og mála endalaust. Takmarkið er ekki að klára, þetta er eilífðarverkefni sem líf dyttarans snýst um – án þess væri líf hans innantómt. Ég tilheyri ekki þessum hóp en öfunda hann auðvitað. Ég tilheyri öðrum hóp sem kalla mætti forfallna klastrara. Það sem einkennir þá er einmitt hamagangur við framkvæmdir en ekki endilega óaðfinnanlegt handbragð. Þeir mála út fyrir og láta málninguna harðna í penslunum. Klastrarinn hendir sér í verkin, riggar upp milliveggjum, skrúfar upp hillur, málar og lakkar eins fjandinn sé á hælunum á honum. Takmark klastrarans er að klára. Hann sér í hillingum að allt sé tilbúið, klárt og komið í stand svo hann geti hallað sér aftur og notið þess. Hann gerir jafnvel grín að hægagangi dyttarans og skilur ekki þetta dútl. Verkefni klastrarans eru þó verkefni sem aldrei sér fyrir endann á. Þegar eitt verk klárast tekur annað við og þegar því er lokið þarf að endurtaka það sem kláraðist þar á undan, einmitt vegna þess að kastað var til höndum til að byrja með. Fullklárað og tilbúið er ástand sem alltaf er utan seilingar og sá dagur kemur aldrei þar sem hægt er að halla sér aftur. Og á meðan klastrarinn reitir hár sitt yfir lausum gólflistum og sprungnu lakki , andvarpar dyttarinn af ánægju yfir því að hafa eitthvað til að dytta að.