Óvinafagnaður Guðmundur Andri Thorsson skrifar 11. apríl 2011 06:00 Snorri vinur minn er einn af þeim sem fannst að hann ætti að segja já en langaði að segja nei og endaði á að segja ha? – hann sat heima. Í morgunkaffinu í gær sagði hann að nú væri þjóðin svolítið eins og manneskja sem á árshátíð frystihússins um helgina hefði gefið verkstjóranum í saltfisknum vænan kinnhest – og fengið ógurlegt kikk út úr því – en þyrfti nú að mæta í vinnuna á mánudegi. Og hitta verkstjórann og alla hina. Það kemur alltaf mánudagur. Játningar jámannsSjálfur var ég jámaður: mig langaði að segja já, fannst að ég ætti að segja já – og sagði já. En mér fannst líka að þetta væri atkvæðagreiðsla sem ég hefði hvorki þekkingu né aðrar forsendur til að taka þátt í; þetta væri óvinafagnaður sem þeir Ólafur Ragnar og Davíð Oddsson, samherjarnir og óvinirnir, efndu nú til vegna þeirrar vansæmdar sem þeir hlutu af verkum sínum og framgöngu í Stóru Bólu. Þessir tveir eru sigurvegarar kosninganna – og geta nú fagnað. Þeir eru óskoraðir leiðtogar þjóðarinnar og ættu eiginlega að leiða hana næstu skref úr því að þeirra leið varð ofan á, en ekki sitja aftur í og trufla í sífellu þau sem eru að reyna að koma þessum volaða skrjóði, sem Ísland er, yfir heiðina sem virðist nú óárennilegri en nokkru sinni. En sum sé. Ég var svo fávís að halda fram í síðustu viku að meirihluti landsmanna yrði mér kannski sammála í þessari atkvæðagreiðslu: þannig hefur það reyndar sjaldnast verið í kosningum, nema kannski þegar ég kaus Vigdísi og það er langt síðan hún var forseti – ansi langt. Það runnu hins vegar á mig tvær grímur síðustu vikuna fyrir kosningar þegar ég sá auglýsingar í Mogganum frá hvorri fylkingu um sig. Fyrst kom auglýsing frá neimönnum með einfaldri framsetningu á einföldum skilaboðum, einn litur, ein hugmynd, ein tilfinning. Svo fletti maður og þá kom auglýsing fyrir jáið full af einhverjum málflutningi – full af kraðaki; alls konar pílur og örvar og dót þar sem málflutningur nei-sinna var tekinn sundur lið fyrir lið. Ég var hálftíma að lesa þetta og ég vissi að þetta væri tapað. SæmdarþorstinnÞetta snerist samt ekki um auglýsingar eða málflutning. Þetta var frekar einfalt: Prinsippið sigraði pragmatíkina. Meirihluti landsmanna telur sig og þjóðarbúið standa það vel að vogandi sé að leggja út í rándýrt og óvisst dómsmál út af „prinsippinu" jafnvel þótt nú sé komið á daginn að líklegt sé að salan ein á Iceland Food dugi fyrir þeirri skuld sem þráttað er um. Hvað sem líður forsetatilskipunum í gær um að nú skuli allir tala einum rómi fyrir „málstað Íslands" þá verður erfitt fyrir minnihlutann að þurfa að þegja undir þeirri miklu þjóðræknisorðræðu sem nú á eftir að magnast upp, þar sem ævinlega verður talað um „málstað Íslendinga" eins og þar búi að baki einhuga þjóð. Þannig verður það ekki því miður. Þjóðin er klofin. Fjörutíu prósent landsmanna vildu klára málið, gangast við íslenskri ábyrgð í bland við ábyrgð þeirra þjóða sem leyfðu Landsbankanum að starfa í trausti þess að hann væri undir eftirliti íslenskra stofnana. Meirihlutinn hugsaði hins vegar: Er þetta mín skuld? Nei. Læt ég kúga mig til hlýðni? Nei. Íslendingar hafa aldrei verið snoknir fyrir ríkisvald og meirihlutinn gerir nú ekki mikið með hugmyndina á bak við „skuldbindingar ríkja". Og meirihluti landsmanna kaus að líta á þetta tiltekna mál sem kúgunartilburði og hótanir Breta og Hollendinga á hendur saklausum íslenskum almenningi sem ekki mætti láta undan því þar með hefðu Íslendingar misst eitthvað mikilsvert úr tilveru sinni, jafnvel sál sinni. Þar reru vitaskuld ýmsir undir, misjafnlega grandvarir. Mestu réð þó hitt: að ríkisstjórn Gordons Brown skyldi beita hryðjuverkalögum á starfsemi íslenska banka. Enn hefur ekki almennilega komist á hreint í íslenskri umræðu hvort rétt sé sú réttlæting Browns og Darlings fyrir því, að ógurlegar fjárhæðir hafi runnið á sínum tíma úr reikningum í Bretlandi – sparifé Englendinga – og til Íslands. Ætli við fáum nokkurn tímann að vita það? Sennilega er það til of mikils mælst að okkur auðnist nokkru sinni að byggja umræður okkar um svona mál á staðreyndum. Aðalatriðið er að þessi gjörningur bresku ríkisstjórnarinnar varð til þess að særa íslensk þjóðarstolt holundarsári. Því það er eitt hugtak sem gengur eins og rauður þráður gegnum bókmenntir Íslendinga og virðist greypt í þjóðarvitundina: Sæmd. Íslendingasögurnar fjalla allar meira og minna um sæmd, réttmæta og óréttmæta og það hvernig réttmæt eftirsókn eftir sæmd getur snúist upp ofdramb – og leitt til falls. „Sæmdarþorsti" er hugtak sem Ólafur Páll Jónsson heimspekingur imprar á í grein í síðasta TMM. Halldór Laxness sagði í Innansveitarkróníku í sinni frægu analýsu á umræðuhefð Íslendinga að Íslendingar „beygi sig lítt fyrir skynsamlegum rökum, fjármunarökum varla heldur". Ég vona að manni fyrirgefist að nefna það hér, en niðurstaða þessarar þjóðaratkvæðagreiðslu virðist renna stoðum undir þau orð; peningaleg rök jámegin dugðu ekki gegn sæmdarþorstanum neimegin. Það kann að vera vegna þess að í grunninn er Íslendingum sama um peninga en ákaflega umhugað um sæmd sína. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Guðmundur Andri Thorsson Mest lesið „Forðastu múslímana,“ sögðu öfgahægrimenn mér Guðni Freyr Öfjörð Skoðun Gott knatthús veldur deilum Stefán Már Gunnlaugsson Skoðun Aðildarviðræður Íslands og Evrópusambandsins Jón Frímann Jónsson Skoðun Gagnaver auka hagkvæmni í fjarskiptum Íslands við umheiminn Þorvarður Sveinsson Skoðun Skammtatölvur: Framtíð tölvunarfræði og bylting í útreikningum Sigvaldi Einarsson Skoðun 2027 væri hálfkák Ole Anton Bieltvedt Skoðun Raforkunotkun gagnavera minnkað mikið Tinna Traustadóttir Skoðun Hamingjan sem leiðarljós menntakerfisins Reynir Böðvarsson Skoðun Hugum að loftgæðum, heilsu og sjálfbærni um jólin – eigum loftgæða jól! Heiða Mjöll Stefánsdóttir,Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir Skoðun Göngum fyrir friði Guttormur Þorsteinsson Skoðun
Snorri vinur minn er einn af þeim sem fannst að hann ætti að segja já en langaði að segja nei og endaði á að segja ha? – hann sat heima. Í morgunkaffinu í gær sagði hann að nú væri þjóðin svolítið eins og manneskja sem á árshátíð frystihússins um helgina hefði gefið verkstjóranum í saltfisknum vænan kinnhest – og fengið ógurlegt kikk út úr því – en þyrfti nú að mæta í vinnuna á mánudegi. Og hitta verkstjórann og alla hina. Það kemur alltaf mánudagur. Játningar jámannsSjálfur var ég jámaður: mig langaði að segja já, fannst að ég ætti að segja já – og sagði já. En mér fannst líka að þetta væri atkvæðagreiðsla sem ég hefði hvorki þekkingu né aðrar forsendur til að taka þátt í; þetta væri óvinafagnaður sem þeir Ólafur Ragnar og Davíð Oddsson, samherjarnir og óvinirnir, efndu nú til vegna þeirrar vansæmdar sem þeir hlutu af verkum sínum og framgöngu í Stóru Bólu. Þessir tveir eru sigurvegarar kosninganna – og geta nú fagnað. Þeir eru óskoraðir leiðtogar þjóðarinnar og ættu eiginlega að leiða hana næstu skref úr því að þeirra leið varð ofan á, en ekki sitja aftur í og trufla í sífellu þau sem eru að reyna að koma þessum volaða skrjóði, sem Ísland er, yfir heiðina sem virðist nú óárennilegri en nokkru sinni. En sum sé. Ég var svo fávís að halda fram í síðustu viku að meirihluti landsmanna yrði mér kannski sammála í þessari atkvæðagreiðslu: þannig hefur það reyndar sjaldnast verið í kosningum, nema kannski þegar ég kaus Vigdísi og það er langt síðan hún var forseti – ansi langt. Það runnu hins vegar á mig tvær grímur síðustu vikuna fyrir kosningar þegar ég sá auglýsingar í Mogganum frá hvorri fylkingu um sig. Fyrst kom auglýsing frá neimönnum með einfaldri framsetningu á einföldum skilaboðum, einn litur, ein hugmynd, ein tilfinning. Svo fletti maður og þá kom auglýsing fyrir jáið full af einhverjum málflutningi – full af kraðaki; alls konar pílur og örvar og dót þar sem málflutningur nei-sinna var tekinn sundur lið fyrir lið. Ég var hálftíma að lesa þetta og ég vissi að þetta væri tapað. SæmdarþorstinnÞetta snerist samt ekki um auglýsingar eða málflutning. Þetta var frekar einfalt: Prinsippið sigraði pragmatíkina. Meirihluti landsmanna telur sig og þjóðarbúið standa það vel að vogandi sé að leggja út í rándýrt og óvisst dómsmál út af „prinsippinu" jafnvel þótt nú sé komið á daginn að líklegt sé að salan ein á Iceland Food dugi fyrir þeirri skuld sem þráttað er um. Hvað sem líður forsetatilskipunum í gær um að nú skuli allir tala einum rómi fyrir „málstað Íslands" þá verður erfitt fyrir minnihlutann að þurfa að þegja undir þeirri miklu þjóðræknisorðræðu sem nú á eftir að magnast upp, þar sem ævinlega verður talað um „málstað Íslendinga" eins og þar búi að baki einhuga þjóð. Þannig verður það ekki því miður. Þjóðin er klofin. Fjörutíu prósent landsmanna vildu klára málið, gangast við íslenskri ábyrgð í bland við ábyrgð þeirra þjóða sem leyfðu Landsbankanum að starfa í trausti þess að hann væri undir eftirliti íslenskra stofnana. Meirihlutinn hugsaði hins vegar: Er þetta mín skuld? Nei. Læt ég kúga mig til hlýðni? Nei. Íslendingar hafa aldrei verið snoknir fyrir ríkisvald og meirihlutinn gerir nú ekki mikið með hugmyndina á bak við „skuldbindingar ríkja". Og meirihluti landsmanna kaus að líta á þetta tiltekna mál sem kúgunartilburði og hótanir Breta og Hollendinga á hendur saklausum íslenskum almenningi sem ekki mætti láta undan því þar með hefðu Íslendingar misst eitthvað mikilsvert úr tilveru sinni, jafnvel sál sinni. Þar reru vitaskuld ýmsir undir, misjafnlega grandvarir. Mestu réð þó hitt: að ríkisstjórn Gordons Brown skyldi beita hryðjuverkalögum á starfsemi íslenska banka. Enn hefur ekki almennilega komist á hreint í íslenskri umræðu hvort rétt sé sú réttlæting Browns og Darlings fyrir því, að ógurlegar fjárhæðir hafi runnið á sínum tíma úr reikningum í Bretlandi – sparifé Englendinga – og til Íslands. Ætli við fáum nokkurn tímann að vita það? Sennilega er það til of mikils mælst að okkur auðnist nokkru sinni að byggja umræður okkar um svona mál á staðreyndum. Aðalatriðið er að þessi gjörningur bresku ríkisstjórnarinnar varð til þess að særa íslensk þjóðarstolt holundarsári. Því það er eitt hugtak sem gengur eins og rauður þráður gegnum bókmenntir Íslendinga og virðist greypt í þjóðarvitundina: Sæmd. Íslendingasögurnar fjalla allar meira og minna um sæmd, réttmæta og óréttmæta og það hvernig réttmæt eftirsókn eftir sæmd getur snúist upp ofdramb – og leitt til falls. „Sæmdarþorsti" er hugtak sem Ólafur Páll Jónsson heimspekingur imprar á í grein í síðasta TMM. Halldór Laxness sagði í Innansveitarkróníku í sinni frægu analýsu á umræðuhefð Íslendinga að Íslendingar „beygi sig lítt fyrir skynsamlegum rökum, fjármunarökum varla heldur". Ég vona að manni fyrirgefist að nefna það hér, en niðurstaða þessarar þjóðaratkvæðagreiðslu virðist renna stoðum undir þau orð; peningaleg rök jámegin dugðu ekki gegn sæmdarþorstanum neimegin. Það kann að vera vegna þess að í grunninn er Íslendingum sama um peninga en ákaflega umhugað um sæmd sína.
Hugum að loftgæðum, heilsu og sjálfbærni um jólin – eigum loftgæða jól! Heiða Mjöll Stefánsdóttir,Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir Skoðun
Hugum að loftgæðum, heilsu og sjálfbærni um jólin – eigum loftgæða jól! Heiða Mjöll Stefánsdóttir,Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir Skoðun