Grautarleg vinnubrögð Ólafur Þ. Stephensen skrifar 11. febrúar 2011 06:00 Sérkennilegt ástand er í leik- og grunnskólum Reykjavíkur þessa dagana. Starfsfólk, börn og foreldrar hafa áhyggjur af framtíð skólanna og niðurskurðaráformum meirihlutans í Reykjavík. Fátt er meira rætt á kennarastofum og þar sem foreldrar hittast. Nú efast út af fyrir sig fáir um að nauðsynlegt sé að spara í rekstri skólanna, eins og í öllum öðrum opinberum rekstri á Íslandi. En borgarstjórnarmeirihlutanum hefur tekizt einstaklega óhönduglega til við sparnaðarvinnuna í skólum Reykjavíkur. Umræðurnar byggjast á orðrómi og kjaftasögum, því að annað er ekki að hafa. Upplýsingar um raunveruleg áform borgaryfirvalda eru mjög af skornum skammti og mikil óánægja er meðal foreldra og starfsfólks með skort á samráði og að til þeirra sé leitað um hugmyndir. Þetta eykur á áhyggjurnar og óvissuna og eitrar skólastarf, bæði í skólum og leikskólum. Hugmyndir borgarstjórnarmeirihlutans um aukinn samrekstur skóla og niðurskurð á kennslu eru furðulega ómótaðar og óskýrar og það virðist stundað, meðal annars í því svokallaða samráði sem fer fram í rýnihópum þar sem foreldrar eru kallaðir til, að kasta fram hugmyndum, sem valda áhyggjum og óróa, en hlaupa svo jafnharðan frá þeim og útskýra að menn hafi nú ekkert meint með þessu og hugdettum hafi meira verið velt upp til að kanna viðbrögðin. Þessi grautarlegu vinnubrögð kunna engan veginn góðri lukku að stýra. Skólastarf þarf festu og skýran ramma. Bæði starfsfólk skólanna og foreldrar nemendanna eru líka skattgreiðendur í Reykjavík og glíma við að ná endum saman. Allir átta sig vafalaust á nauðsyn þess að hagræða í rekstrinum. En eðlilegast hefði verið að fá fram hugmyndir starfsfólks og foreldra um hagræðingu og leggja svo mótaðar hugmyndir fram til kynningar, í stað þeirra furðulega grautarlegu vinnubragða, pukurs og samskiptaleysis, sem hefur einkennt þessa vinnu. Samrekstur skóla þarf ekki að vera vond hugmynd, ekki heldur fækkun stjórnenda. En borgarstjórnarmeirihlutinn þarf að geta sýnt foreldrum (sem eru viðskiptavinir skólakerfisins) fram á að slíkar breytingar bitni ekki á faglegum gæðum skólastarfs. Þar er að mörgu að hyggja. Stjórnendur grunnskóla eru til dæmis flestir með grunnskólakennaramenntun og stjórnendur leikskólanna með leikskólakennaramenntun. Hafa þeir faglegar forsendur til að stjórna stærri einingum? Dregur úr fjölbreytni skólagerða með samrekstri og sameiningum, og þar með úr möguleikum foreldra til að velja skóla og leikskóla sem hentar börnum þeirra? Verður gengið á þá kennslu sem ber að veita samkvæmt aðalnámskrá? Nú hafa foreldrar í Reykjavík verið boðaðir til fundar með borgarstjóranum og formanni menntaráðs í næstu viku. Þá er alveg bráðnauðsynlegt að þau hafi eitthvað skárra fram að færa en það ómarkvissa taut, sem til þessa hefur komið frá borgarstjórnarmeirihlutanum. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Ólafur Stephensen Mest lesið „Forðastu múslímana,“ sögðu öfgahægrimenn mér Guðni Freyr Öfjörð Skoðun Aðildarviðræður Íslands og Evrópusambandsins Jón Frímann Jónsson Skoðun Gott knatthús veldur deilum Stefán Már Gunnlaugsson Skoðun Gagnaver auka hagkvæmni í fjarskiptum Íslands við umheiminn Þorvarður Sveinsson Skoðun 2027 væri hálfkák Ole Anton Bieltvedt Skoðun Skammtatölvur: Framtíð tölvunarfræði og bylting í útreikningum Sigvaldi Einarsson Skoðun Hamingjan sem leiðarljós menntakerfisins Reynir Böðvarsson Skoðun Raforkunotkun gagnavera minnkað mikið Tinna Traustadóttir Skoðun Göngum fyrir friði Guttormur Þorsteinsson Skoðun Halldór 22.12.2024 Halldór Baldursson Halldór
Sérkennilegt ástand er í leik- og grunnskólum Reykjavíkur þessa dagana. Starfsfólk, börn og foreldrar hafa áhyggjur af framtíð skólanna og niðurskurðaráformum meirihlutans í Reykjavík. Fátt er meira rætt á kennarastofum og þar sem foreldrar hittast. Nú efast út af fyrir sig fáir um að nauðsynlegt sé að spara í rekstri skólanna, eins og í öllum öðrum opinberum rekstri á Íslandi. En borgarstjórnarmeirihlutanum hefur tekizt einstaklega óhönduglega til við sparnaðarvinnuna í skólum Reykjavíkur. Umræðurnar byggjast á orðrómi og kjaftasögum, því að annað er ekki að hafa. Upplýsingar um raunveruleg áform borgaryfirvalda eru mjög af skornum skammti og mikil óánægja er meðal foreldra og starfsfólks með skort á samráði og að til þeirra sé leitað um hugmyndir. Þetta eykur á áhyggjurnar og óvissuna og eitrar skólastarf, bæði í skólum og leikskólum. Hugmyndir borgarstjórnarmeirihlutans um aukinn samrekstur skóla og niðurskurð á kennslu eru furðulega ómótaðar og óskýrar og það virðist stundað, meðal annars í því svokallaða samráði sem fer fram í rýnihópum þar sem foreldrar eru kallaðir til, að kasta fram hugmyndum, sem valda áhyggjum og óróa, en hlaupa svo jafnharðan frá þeim og útskýra að menn hafi nú ekkert meint með þessu og hugdettum hafi meira verið velt upp til að kanna viðbrögðin. Þessi grautarlegu vinnubrögð kunna engan veginn góðri lukku að stýra. Skólastarf þarf festu og skýran ramma. Bæði starfsfólk skólanna og foreldrar nemendanna eru líka skattgreiðendur í Reykjavík og glíma við að ná endum saman. Allir átta sig vafalaust á nauðsyn þess að hagræða í rekstrinum. En eðlilegast hefði verið að fá fram hugmyndir starfsfólks og foreldra um hagræðingu og leggja svo mótaðar hugmyndir fram til kynningar, í stað þeirra furðulega grautarlegu vinnubragða, pukurs og samskiptaleysis, sem hefur einkennt þessa vinnu. Samrekstur skóla þarf ekki að vera vond hugmynd, ekki heldur fækkun stjórnenda. En borgarstjórnarmeirihlutinn þarf að geta sýnt foreldrum (sem eru viðskiptavinir skólakerfisins) fram á að slíkar breytingar bitni ekki á faglegum gæðum skólastarfs. Þar er að mörgu að hyggja. Stjórnendur grunnskóla eru til dæmis flestir með grunnskólakennaramenntun og stjórnendur leikskólanna með leikskólakennaramenntun. Hafa þeir faglegar forsendur til að stjórna stærri einingum? Dregur úr fjölbreytni skólagerða með samrekstri og sameiningum, og þar með úr möguleikum foreldra til að velja skóla og leikskóla sem hentar börnum þeirra? Verður gengið á þá kennslu sem ber að veita samkvæmt aðalnámskrá? Nú hafa foreldrar í Reykjavík verið boðaðir til fundar með borgarstjóranum og formanni menntaráðs í næstu viku. Þá er alveg bráðnauðsynlegt að þau hafi eitthvað skárra fram að færa en það ómarkvissa taut, sem til þessa hefur komið frá borgarstjórnarmeirihlutanum.