Körfubolti

NBA í nótt: Þriggja stiga flautukarfa Durant tryggði Oklahoma sigur

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Sex leikir fóru fram í NBA-deildinni í körfubolta í nótt. Meistararnir í Dallas töpuðu enn einum leiknum - í þetta sinn fyrir Kevin Durant og félögum í Oklahoma City. Durant tryggði sínu liði sigur með þriggja stiga flautukörfu en lokatölur voru 104-102.

Dallas hefur tapað fyrstu þremur leikjum sínum á tímabilinu en Dirk Nowitzky átti engu að síður góðan leik í nótt - hann skoraði 29 stig og tók tíu fráköst.

Oklahoma City var með frumkvæðið lengst af í fjórða leikhluta og fimm stiga forystu þegar 46 sekúndur voru eftir, 101-96. Jason Terry setti þá niður þriggja stiga körfu og Vince Carter kom liðinu yfir með öðrum þristi þegar aðeins 1,4 sekúndur voru eftir af leiknum.

Oklahoma City tók leikhlé og fékk innkast á vallarhelmingi Dallas. Boltanum var komið að Durant sem tók erfitt skot en hitti fullkomnlega og áhorfendur í húsinu gjörsamlega trylltust af fögnuði. Sigurkörfuna má sjá hér fyrir ofan.

LA Lakers hafði betur gegn New York, 99-82, þar sem Kobe Bryant skoraði 28 stig. Pau Gasol var líka öflugur með sextán stig, tíu fráköst og fimm stoðsendingar. Carmelo Anthony skoraði 27 stig fyrir Knicks og Amare Stoudemire fimmtán en hann hitti úr fjórum af sautján skotum sínum utan af velli í leiknum.

Chicago hafið betur gegn Sacramento, 108-98. Derrick Rose var með nítján stig og átta stoðsendingar.

Úrslit næturinnar:

Sacramento - Chicago 98-108

Portland - Denver 111-102

LA Lakers - New York 99-82

Orlando - New Jersey 94-78

Houston - San Antonio 105-85

Oklahoma City - Dallas 104-102

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×