Körfubolti

Baron Davis: Valdi New York frekar en Miami og Lakers

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Baron Davis.
Baron Davis. Mynd/Nordic Photos/Getty
Baron Davis, alskeggjaði leikstjórnandinn sem var á sínum talinn í hópi með öflugustu leikstjórnendum NBA-deildarinnar er búinn að finna sér nýtt lið eftir að Cleveland Cavaliers losaði samning hans undan launaþakinu og lét hann fara.

Nokkur lið voru á eftir Baron Davis þar á meðal bæði Miami Heat og Los Angeles Lakers. Davis var þó ekki eins spenntur að spila með Kobe Bryant eða LeBron James og hann var að fá tækifæri til að spila með New York Knicks.

„Ég hef alltaf fundið mig vel á móti Knicks og þá sérstaklega í Madison Square Garden. Þetta var einstakt tækifæri og of gott til að sleppa því," sagði Baron Davis en hann er reyndar meiddur í baki og verður ekki með New York liðinu fyrstu vikur tímabilsins.

New York Knicks var að leita sér að "ódýrum" leikstjórnanda eftir að þeir létu Chauncey Billups fara en þeir eru reyndar líka búnir að semja við Mike Bibby sem olli miklum vonbrigðum hjá Miami Heat á síðustu leiktíð.

Baron Davis lék bæði með Clippers og Cavaliers á síðasta tímabili og var þá með 13,1 stig og 6,7 stoðsendingar að meðaltali. Hann er með 16.5 stig og 7,3 stoðsendingar að meðaltali á ferlinum eftir að hafa verið valinn af Charlotte Hornets í nýliðavalinu 1999.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×