Körfubolti

Shawn Marion til blaðamanna: Hér eftir kallið þið mig heimsmeistara

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Shawn Marion með þeim Vince Carter, Lamar Odom,  Dirk Nowitzki og Jason Kidd.
Shawn Marion með þeim Vince Carter, Lamar Odom, Dirk Nowitzki og Jason Kidd. Mynd/AP
Shawn Marion var í stóru hlutverki hjá Dallas Mavericks þegar liðið tryggði sér NBA-meistaratitilinn í sumar. Framundan er nýtt tímabil en Marion er orðinn frekar pirraður á því að bandarískir fjölmiðlar séu þegar búnir að afskrifa Dallas-liðið í titilvörninni.

Flestir eru uppteknir af því að lofa lið eins og Miami Heat, Los Angeles Lakers, Chicago Bulls og Oklahoma City Thunder. Það er enginn að tala um Dallas Mavericks og Marion fannst kominn tími á að taka fjölmiðlamenn á teppið.

„Ég vil að þið allir kallið mig hér eftir heimsmeistara," sagði Shawn Marion. „Við erum komnir í þá stöðu að allir eru farnir að afskrifa okkur og eru uppteknir við að tala um alla aðra. Ég er orðinn mjög pirraður á þessu. Þið eruð allir að taka eitthvað frá okkur það sem við unnum hörðum höndum fyrir," sagði Marion.

„Það hafa allir í þessu liði unnið sér þann rétt að vera kallaðir heimsmeistarar og ég óska þess að við verðum kallaðir okkar rétta nafni hér eftir," sagði Marion.

Shawn Marion var með 11,9 stig og 6,3 fráköst að meðaltali á 32,9 mínútum í úrslitakeppninni í vor. Hann var þá að klára sitt annað tímabil með Dallas eftir að hafa spilað með Phoenix, Miami og Toronto frá 1999 til 2009.





NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×