Körfubolti

Kobe ætlar sér að spila í gegnum meiðslin á jóladag

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kobe Bryant.
Kobe Bryant. Mynd/AP
Kobe Bryant býst við því að spila með Los Angeles Lakers í fyrsta leik liðsins á nýju tímabilinu sem hefst á jóladag. Lakers-liðið mætir þá Chicago Bulls en fimm fyrstu leikir NBA-tímabilsins fara fram 25. desember.

Bryant lék ekki með Lakers í síðasta æfingaleiknum á móti nágrönnunum í Los Angeles Clippers á miðvikudagskvöldið en hann er meiddur á hægri úlnlið.

„Það hefur alltaf verið í mínu eðli að finna leiðir til þess að spila," sagði Kobe Bryant en það er ljóst að hann mun örugglega finna fyrir þessum meiðslum spili hann á jóladag.

„Ég hef verið það heppinn að hafa getað spilað í gegnum hin ýmsu meiðsli á mínum ferli. Lykilatriði hefur verið að ég hef ekki gert illt verra með því að spila meiddur," sagði Bryant.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Kobe meiðist á hægri hendi en hann braut vísifingur á sömu hendi árið 2009 og spilaði með þau meiðsli út tímabilið. Lakers vann einmitt NBA-titilinn það tímabil.





NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×