Körfubolti

Dallas pakkað saman - Miami vann auðveldan sigur á meisturunum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
LeBron James.
LeBron James. Mynd/Nordic Photos/Getty
Miami Heat fór á kostum í 105-94 sigri á NBA-meisturum Dallas Mavericks í fyrsta leik liðanna á nýju NBA-tímabili en leikurinn fór fram á heimavelli Dallas. Miami hafði mikla yfirburði lengstum í leiknum en Mavericks náði aðeins að laga stöðuna í lokin.

Leikmenn Miami þurftu að horfa upp á Dallas-liðið hengja upp meistarafánann fyrir leikinn og það leit út fyrir að það hafi gírað þá upp þegar kom að því að spila körfubolta.

Miami var 62-41 yfir í hálfleik og var með 32 stiga forskot fyrir lokaleikhlutann, 97-65. Dallas vann fjórða leikhlutann 29-8 og það munaði því "bara" ellefu stigum á liðunum í lok leiksins.

LeBron James og Dwyane Wade fóru á kostum í kvöld. James var með 37 stig, 10 fráköst og 6 stoðsendingar en Wade var með 26 stig, 8 fráköst og 6 stoðsendingar. Enginn annar leikmaður Miami-liðsins náði því að skora tíu stig.

Jason Terry var stigahæstur hjá Dallas með 23 stig og Dirk Nowitzki skoraði 21 stig á 29 mínútum.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×