Körfubolti

Kobe ósattur: Lamar Odom farinn til Dallas fyrir nánast ekki neitt

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lamar Odom og Kobe Bryant.
Lamar Odom og Kobe Bryant. Mynd/AFP
Lamar Odom er ekki lengur leikmaður Los Angeles Lakers í NBA-deildinni því félagið tók þá ákvörðun að skipta leikmanninum til meistaranna í Dallas Mavericks fyrir valrétt í fyrstu umferð og meira rými undir launaþakinu.

Lamar Odom var fyrir helgi á leiðinni til New Orleans Hornets sem hluti af skiptunum fyrir Chris Paul en David Stern, yfirmaður NBA-deildarinnar, ákvað síðan að loka á þau skipti. Odom var ekki sáttur með að vera notaður sem skiptimynt og bað um að fá að fara frá Lakers. Það leið ekki langur tími þar til að kappinn var kominn til liðs við Dirk Nowitzki og félaga í Dallas.

„Ef ég segi alveg eins og er þá er ég ekki hrifinn. Það er slæmt að missa Lamar en Pau (Gasol) er ennþá hjá okkur og við getum verið þakklátir fyrir það. Það er erfitt að sjá á eftir mönnum sem hafa farið með þér í svo margar orustur," sagði Kobe Bryant en það var ekki bara að horfa á eftir Odom heldur að sjá hann fara til höfuðandstæðingana í Dallas sem sópuðu þeim út úr úrslitakeppni í vor.

„Það er sérstaklega slæmt að sjá hann fara til þeirra. Við ætlum að koma til baka og hefna fyrir síðasta tímabil. Er ég á því að við höfum fengið of lítið fyrir hann? Hvað fengum við eiginlega? Ég held að Mark Cuban muni ekki mótmæla þessum skiptum," sagði Bryant svekktur.

Lamar Odom er 208 sm framherji sem varð NBA-meistari með Lakers 2009 og 2010. Hann var valinn besti sjötti maður deildarinnar á síðustu leiktíð eftir að hafa komið með 14,6 stig, 8,9 fráköst og 4,0 stoðsendingar af bekknum.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×