Körfubolti

Arenas veit hvað hann vill

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Gilbert með hlífar á báðum hnjám í leik með Orlando Magic.
Gilbert með hlífar á báðum hnjám í leik með Orlando Magic. MYND/AP
Gilbert Arenas er án samnings eftir að Orlando Magic lét hann fara fyrir viku síðan. Ekkert lið hefur borið víurnar í hinn 29 ára gamla leikstjórnanda sem afrekaði það á sínum yngri árum að skora yfir 25 stig að meðaltali í leik þrjú tímabil í röð.

Arenas veitt hvert hann vill fara en hann hefur sett upp óskalista fyrir umboðsmann sinn að vinna með. Hann vill fara til Lakers, Heat, Knicks eða til þess liðs sem nælir í Dwight Howard verði honum skipt.

New Jersey Nets hefur gefið í skyn að liðið sé tilbúið að semja við Arenas takist liðinu að næla í Howard frá Magic. Alls er óvíst hvort hin liðin þrjú hafi áhuga á Arenas.

Heimildir herma að New York Knicks vilji frekar fá Baron Davis en Knicks og Davis eiga í samningaviðræðum.

Arenas er frá Los Angeles en Lakers eru efins um að Arenas passi inn í liðið í ljósi óvissunnar sem þar ríkir í kjölfar þess að Lamar Odom var sendur frá félaginu og óvíst er hvort Pau Gasol verði skipt frá félaginu.

Stóra spurningin er hvað Miami Heat gerir. Talið er að Heat vilji líkt og Knicks frekar fá Davis en fari Davis til Knicks gæti Heat reynt við Arenas.

Sama hvort Arenas fái samning hjá einhverjum þeirra liða sem hann vill leika fyrir er alls óljóst hverju hann getur skilað til liðsins. Arenas lék aðeins 117 leiki af 328 frá því hann skrifaði upp á risa samning að verðmæti 111 milljón dollarar vegna þráðlátra meiðsla á hné og leikbanna.

Nái Arenas sér á strik á ný getur hann hjálpað hvaða lið sem er en aðeins tíminn getur leitt það í ljós hvort hann sé áhættunnar virði.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×