Körfubolti

Miami byrjaði á því að bursta nágrannana í Orlando - Dallas tapaði

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Dwyane Wade og Lebron James fífluðust á bekknum þegar sigurinn var orðinn öruggur.
Dwyane Wade og Lebron James fífluðust á bekknum þegar sigurinn var orðinn öruggur. Mynd/AP
NBA-liðin eru byrjuð að spila æfingaleiki fyrir tímabilið sem hefst næsta sunnudag. Miami Heat lék í nótt sinn fyrsta leik á móti nágrönnum sínum á Flórída, Orlando Magic, og átti ekki í miklum vandræðum í 118-85 sigri. Oklahoma City vann líka NBA-meistara Dallas í nótt.

Þessir æfingaleikir skipta nú ekki miklu máli en Orlando var engu að síður búið að vinna 22 leiki í röð á undirbúningstímabilinu og hafði ekki tapað æfingaleik fyrir tímabil síðan í október 2008.

LeBron James skoraði 19 stig fyrir Miami og Terrel Harris, sem er að berjast fyrir sæti í hópnum, bætti við 16 stigum. Dwyane Wade og Chris Bosh voru báðir með fjórtán stig.

Ryan Anderson og J.J. Redick skoruðu báðir 22 stig fyrir Orlando en Dwight Howard var aðeins með fimm stig í leiknum.

Oklahoma City Thunder vann 106-92 sigur á NBA meisturum Dallas Mavericks í Dallas þar sem að Kevin Durant skoraði 21 stig og James Harden var með 16 stig. Þetta var fyrsti leikur hjá báðum liðum.

Lamar Odom var með 14 stig og 7 fráköst í sínum fyrsta leik með Dallas en hvorki Dirk Nowitzki né Jason Kidd spiluðu í leiknum. Dominique Jones og Roddy Beaubois voru stigahæstir með 17 stig.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×