Körfubolti

Ekki byrjar það vel hjá Miami Heat - Miller frá í átta vikur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mike Miller.
Mike Miller. Mynd/Nordic Photos/Getty
NBA-leikmennirnir mega nú mæta í æfingahús sinna liða á nýjan leik og þeir hafa því byrjað undirbúning sinn fyrir komandi tímabil þrátt fyrir að formlegar æfingabúðir liðanna hefjist ekki fyrr en 9. desember næstkomandi. Einn leikmaður getur þó ekki byrjað að æfa strax.

Mike Miller, leikmaður Miami Heat, missti mikið úr á síðasta tímabili vegna meiðsla og náði sér aldrei almennilega á strik. Óheppni hans heldur áfram því hann þurfti að dögunum að fara í aðgerð vegna kviðsslits.

Miller verður því frá næstu átta vikur og mun missa af byrjun tímabilsins. „Það er ótrúlegt hvað ég er búinn að vera óheppinn. Þegar það rignir hjá mér þá rignir eins og það sé hellt úr fötu," sagði Mike Miller.

Mike Miller meiddist á hægri þumal á undirbúningstímabilinu í fyrra, glímdi við axlarmeiðsli stóran hluta tímabilsins og þurfti síðan að fara í aðgerð á vinstri þumal eftir að tímabilinu lauk.

Udonis Haslem, Chris Bosh og Joel Anthony voru allir mættir þegar Miami Heat opnaði aftur dyrnar fyrir leikmenn sína en það er ekki búist við að LeBron James og Dwyane Wade mæti ekki fyrr en í næstu viku. Forráðamenn Miami eiga síðan eftir að fylla í margar lausar stöður áður en liðið verður klárt í slaginn.



NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×