Körfubolti

Treyja Deron Williams upp í rjáfur eftir aðeins 15 leiki

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Deron Williams er á heimleið frá Tyrklandi eftir að NBA-deilan leystist og deildin er að fara í gang á nýjan leik. Williams stóð sig það vel með tyrkneska liðinu Besiktas að hér eftir má enginn spila númer átta hjá liðinu.

Besiktas kvöddu Deron Williams með því að hengja treyju hans upp í rjáfur. Það er ekki slæmt fyrir mann sem spilaði aðeins fimmtán leiki með liðinu. Athöfnin fór fram fyrir leik Besiktas og hollenska liðsins Zorg en Zekerheid Leiden. Það má sjá myndband frá henni með því að smella hér fyrir ofan.

Williams var með 21,8 stig og 6.5 stoðsendingar að meðaltali í leik með Besiktas en hápunkturinn var þegar hann skoraði 50 stig í 105-94 sigri á þýska liðinu Gottingen í Evrópukeppninni í síðustu viku.

Deron Williams leikur með New Jersey Nets sem fékk hann í skiptum við Utah Jazz á miðju síðasta tímabili. Hann þykir vera í hópi bestu leikstjórnenda NBA-deildarinnar.

Williams kvaddi Tyrkina með því að segja að hann stefndi á það að spila aftur með Besiktas áður en körfuboltaskórnir hans færu upp á hillu.

Deron Williams er ekki eini NBA-leikmaðurinn sem er að yfirgefa tyrknesku deildina því þeir Zaza Pachulia, Thabo Sefolosha, Semih Erden og Mehmet Okur voru allir að spila í Tyrklandi á meðan verkbannið var í gangi í NBA-deildinni.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×