Körfubolti

Bréf stjóra þjálfarasamtaka NBA: Þið verðið að bjarga tímabilinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/AP
Michael Goldberg, framkvæmdastjóri þjálfarasamtaka NBA, tók sig til og skrifaði opið bréf til eigenda NBA-liðanna, leikmannasamtakanna og leikmanna NBA-deildarinnar þar sem hann biðlar til allra deiluaðila um að ná samningum og bjarga NBA-tímabilinu.

Það er lítið að frétta af NBA-deilunni og virðist eins og báðir deiluaðilar séu að bíða eftir næstu skrefinu hjá hinum. NBA-eigendurnir hafa sem dæmi ekkert aðhafst síðan að leikmennirnir höfnuðu síðasta samningstilboði þeirra, leystu upp leikmannasamtökin sín og höfðuðu mál gegn NBA.

Goldberg hefur mikla virðingu innan NBA-deildarinnar enda hefur hann verið formaður þjálfarasamtaka deildarinnar í 30 ár. Hann nefnir sérstaklega tjónið, sem varð þegar NHL-deildin missti 2004-05 tímabilið vegna verkfalls, sem víti til varnaðar.

Goldberg segir í bréfinu að það megi aldrei koma til þess að NBA-tímabilið verði flautað af því það myndi hafa skelfilegar afleiðingar fyrir framtíð NBA-deildarinnar. Hann segir að það myndi taka mörg ár að vinna upp tjónið sem yrði á vinsældum og virðingu deildarinnar fari allt á versta veg og það sé alls ekki rétta lausnin að fara með deiluna fyrir dómstóla.

„Þið verðið að bjarga tímabilinu. Sagan hefur sýnt sig að öll deilumál í íþróttum leysast á endanum en það má engan tíma missa. Báðir deiluaðilar þurfa að hætta hugsa um eigin hagsmuni, virða fyrir sér fyrirsagnirnar úr fjármálaheiminum og vinna að því að leysa þessa deilu," skrifaði Michael Goldberg.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×