Körfubolti

Búið að leysa NBA-deiluna - líklega byrjað að spila á jóladag

LeBron og félagar fagna í dag.
LeBron og félagar fagna í dag.
Kraftaverkin ku gerast á jólunum og það á svo sannarlega við í NBA-deilunni. Það benti ekkert til þess að það myndi nokkuð þokast í deilunni á næstunni þegar óvænt var greint frá því í dag að búið væri að leysa deiluna. Leikmenn og eigendur hafa loksins komist að samkomulagi og búið er að aflétta 149 daga verkbanni í deildinni sem hefst væntanlega á jóladag.

Leynifundur fór fram í vikunni og hann skilaði góðum árangri. Í kjölfarið var fundað í 15 klukkutíma í gær og á þeim fundi handsöluðu deiluaðilar loksins samning.

Nú eiga eigendur og leikmenn eftir að samþykkja samninginn formlega en það er talið afar ólíklegt að hann verði felldur.

Forráðamenn NBA-deildarinnar stefna að því að spila 66 leiki á tímabilinu en heilt tímabil er venjulega 82 leikir. Æfingar hefjast væntanlega 9. desember.

Aðeins eru 12 dagar síðan viðræður runnu út í sandinn og héldu þá margir að það yrði ekki spilaður neinn körfubolti í vetur. Þessi tíðindi koma því á óvart en gleðja eflaust marga.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×