Körfubolti

Leikmenn kjósa um tillögu - spilað í NBA 15. desember?

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
David Stern á blaðamannafundi í gær.
David Stern á blaðamannafundi í gær. Nordic Photos / Getty Images
Deiluaðilar í verkbanni NBA-deildarinnar hafa fundað stíft síðustu daga og hafa fulltrúar deildarinnar nú lagt fram tillögu að samningum. Verði tillagan samþykkt af leikmönnum hefst nýtt keppnistímabil þann 15. desember næstkomandi.

David Stern, framkvæmdarstjóri NBA-deildarinnar, sagði tillöguna sýna að eigendur félaganna hefðu teygt sig eins langt og þeir mögulega gátu. „Við gerðum það til að eiga möguleika á að hefja 72 leikja keppnistímabil þann 15. desember,“ sagði Stern við fjölmiðla vestan hafs í nótt.

„Við höfum nú fengið nýja og endurskoðaða tillögu frá NBA-deildinni. Við erum ekki fullkomnlega sáttir við allt það sem kemur fram í henni en okkur fannst engu að síður mikilvægt að reyna að ná samningum,“ sagði Derek Fisher, leikmaður LA Lakers og formaður leikmannasamtakanna.

„Við myndum gjarnan vilja halda viðræðum áfram og reyna að ná betri samningnum. En það gest ekki tími til þess eins og er,“ bætti hann við.

Fundað verður með fulltrúum leikmanna á næstu dögum og er búist við því að leikmenn fái að kjósa um tillöguna í upphafi næstu viku. Stern segir að verði henni hafnað muni eigendur félaganna ekki bjóða jafn góð kjör á ný.

Deilan snýst um skiptingu tekna deildarinnar á milli félaganna og leikmanna. Félögin eru nú reiðubúin að semja um að skipta tekjunum jafnt en leikmenn vilja ekki minna en 52,5 prósent. En ef nýju tillögunni verður hafnað munu félögin ekki sætta sig við minna en 53 prósent teknanna. Gamli samningurinn tryggði leikmönnum 57 prósent teknanna.

Einnig er deilt um launaþak leikmanna sem og önnur mál sem snúa að öðru en fjárhagslegum atriðum.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×