Körfubolti

76 prósent Bandaríkjamanna sakna ekki NBA-deildarinnar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/AP
Í dag er að margra mati úrslitdagur í NBA-deilunni eftir að David Stern, yfirmaður NBA-deildarinnar, setti leikmannasamtökunum afarkosti um að taka nýjasta tilboði eigendanna því annars yrði næsta tilboð mun óhagstæðara fyrir þá.

NBA-verkfallið er nú orðið 132 daga gamalt og af því tilefni var gerð könnum um hversu mikið Bandaríkjamann sakna þess að hafi ekki NBA-leiki í gangi í sjónvarpinu sínu. Það kemur kannski mörgum á óvart miðað við umfjöllunina í bandarískum fjölmiðlum að hinn almenni Bandaríkjamaður virðist ekki sakna þess mikið að NBA-deildin sé ekki í gangi.

Aðeins tólf prósent aðspurða eru ósáttir með að NBA-deildin sé ekki farin af stað og önnur tólf prósent höfðu enga skoðun á þessu. Það þýðir að 76 prósent aðspurða er alveg sama þótt að ekki sé spilað í NBA-deildinni.

Það er nokkur munur á kynþáttum. Aðeins átta prósent hvítra sakna NBA-körfuboltans en hinsvegar sakna 26 prósent blökkumanna körfuboltans. Það er mun minni munur á kynjunum, 72 prósent karla er alveg sama um NBA en 80 prósent kvenna eru þeirra skoðunar að það skipti þær engu máli þótt að ekki sé spilað í NBA-deildinni. Söknuðurinn er mestur milli 18 og 29 ára en miklu minni hjá þeim sem erum komin inn á fertugsaldurinn.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×