Körfubolti

Vonarglæta í NBA deilunni eftir 10 tíma maraþonfund

Sigurður Elvar Þórólfsson skrifar
David Stern, framkvæmdastjóri NBA deildarinnar.
David Stern, framkvæmdastjóri NBA deildarinnar. AP
Eftir 10 tíma sáttafund í gær telja fréttaskýrendur meiri líkur á því að verkbann NBA deildarinnar í körfubolta fari brátt að ljúka. Eigendur og talsmenn leikmannasamtaka hafa deilt um tekjuskiptingu og hafa langir sáttafundir ekki skilað árangri fram til þess.

Deiluaðilar hafa ekki rætt saman frá því í síðustu viku þegar allt „sprakk" í loft upp í deilunni. Verkbannið hefur staðið yfir frá því í júlí og nú þegar er búið að fresta upphafi keppnistímabilsins um tvær vikur.

David Stern, framkvæmdastjóri NBA deildarinnar, sat maraþonfundinn en hann var ekki á síðasta fundi vegna veikinda. Helsta þrætueplið er skipting á tekjum. Leikmenn hafa fengið 57% í sinn hlut á undanförnum árum en eigendur vilja að tekjunum verði skipt jafnt á milli leikmanna og eigenda. Leikmannasamtökin hafa lagt fram tilboð þar sem þeir vilja fá 52,5% af tekjunum í sinn hlut.

Það er enn óljóst hvort hægt verði að leika fullt keppnistímabil ef deilan leysist á næstunni. Hvert lið leikur 82 deildarleiki áður en kemur að úrslitakeppninni.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×