Körfubolti

Bauð öllum starfsmönnum íþróttahússins út að borða

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Danny Granger.
Danny Granger. Mynd/Nordic Photos/Getty
NBA-verkfallið bitnar ekki bara á NBA-áhugmönnum, milljarðamæringunum sem eiga félögin eða milljarðamæringunum sem spila leikinn. Það er fullt af fólki sem vinnur í kringum NBA-liðin og NBA-leikina og það hefur þurft að horfa á eftir miklum tekjumissi á meðan eigendur og leikmenn deila um hvernig þeir eiga að skipta öllum milljörðunum.

Danny Granger er aðalstjarna Indiana Pacers liðsins og hann tók sig til og bauð öllu starfsfólki Conseco Fieldhouse, heimahallar Indiana Pacers, út að borða á dögunum. Granger var með 20,5 stig að meðaltali á síðasta tímabili eða nokkuð minna en hann skoraði tímabilin á undan.

Granger sendi boðið út á twitter-síðu sinni en það má örugglega búast við góðri mætingu ekki síst ef fólkið fær að umgangast stjörnuna sína líka.

Granger er ekki sá fyrsti til að létta starfsfólki NBA-félaga lífið en hann fór þó ekki eins langt og Lakers-mennirnir Luke Walton og Kobe Bryant sem gáfu þúsundir dollara til starfsmanna Lakers sem höfðu misst vinnunna vegna verkfallsins.

Danny Granger fékk 10.973.202 dollara í laun fyrir síðasta tímabil eða tæpa 1,3 milljarða íslenskra króna. Hann hefur fengið yfir 27 milljónir dollara í laun á þeim sex árum sem hann hefur spilað í NBA-deildinni. Strákurinn ætti því alveg að hafa efni á því að bjóða starfsfólkinu upp á alvöru steik og eitthvað gott að drekka með.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×