Körfubolti

Will Smith og frú í nýja eigendahóp Philadelphia 76ers

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Will Smith og Jada Pinkett Smith.
Will Smith og Jada Pinkett Smith. Mynd/Nordic Photos/Getty
Eigendur hinna NBA-liðanna í körfubolta hafa samþykkt söluna á Philadelphia 76ers liðinu til nýrra eigenda en þeir eru fjárfestingahópur í forystu Joshua Harris. Ed Snider og Comcast-Spectacor seldu 76ers fyrir á bilunu 270 til 290 milljónir dollara sem mörgum þykir ekki mikið fyrir svona fornfrægt NBA-félag.

Nú er komið í ljós að einn af hluthöfunum í þessum fjárfestingahópi eru leikarahjónin Will Smith og Jada Pinkett Smith en Will Smith, sem er einn launahæsti leikari í heimi, hefur aldrei farið leynt með það að hann sé stoltur af því að vera frá Philadelphia.

Philadelphia 76ers hefur verið á uppleið síðustu ár og Doug Collins kom liðinu í úrslitakeppnin í vor þrátt fyrir liðið hafi tapað 13 af fyrstu 16 leikjum sínum.

Fyrri eigendur 76ers voru gagnrýndir undanfarin ár fyrir bæði óskynsamlegar ákvarðanir í leikmannamálum sem og áhugaleysis á liðinu en mörgum í Philadelphia fannst allur kraftur þeirra hafa farið í íshokkí-liðið Philadelphia Flyers sem er og verður áfram í eigi Ed Snider og Comcast-Spectacor.

Það má því búast við því að nýir eigendur reyni að rífa upp reksturinn á þessu fornfræga félagi sem hefur orðið NBA-meistari þrisvar sinnum þar af 1966-67 með Wilt Chamberlain í forystuhlutverki 1967 og 1983 með Julius Erving (Dr J.) og Moses Malone hlið við hlið.

Charles Barkley spilaði líka með Philadelphia 76ers frá 1984 til 1992 og síðasta risastjarna liðsins var Allen Iverson sem fór alla leið í úrslitaeinvígið með liðinu árið 2001.



NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×