Körfubolti

Kobe Bryant með 595 milljóna tilboð frá ítölsku liði

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kobe Bryant.
Kobe Bryant. Mynd/AP
Ítalska körfuboltaliðið Virtus Bologna er tilbúið að borga Kobe Bryant stórar fjárhæðir sé hann tilbúinn að spila með því á tímabilinu. Bryant er laus þar sem að allar líkur er á því að ekkert verði af NBA-tímabilinu vegna launadeilu.

Kobe Bryant er með tilboð á borðinu upp á fimm milljónir dollara eða 595 milljónir íslenskra króna og vonast forráðamenn Virtus Bologna að kappinn verði búinn að skrifa undir þegar hann mætir til Ítalíu í vikunni. Bryant er þar í boði eins af styrktaraðilum sínum.

Heimsþekkt ítalskt fyrirtæki er tilbúið að borga brúsann en Kobe getur valið úr ýmsum tilboðum. Hann getur gert fyrrnefndan samning fyrir allt tímabilið en það er einnig í boði að fá tvær milljónir dollara fyrir tvo mánuði, 1,3 milljónir dollara fyrir einn mánuð eða 900 þúsund dollara fyrir einn leik.

Kobe gæti síðan farið heim til Los Angeles og spilað fyrir Lakers um leið og verkfallið í NBA myndi leysast. Tyrkneska félagið Besiktas og lið frá Kína hafa einnig verið að bjóða í Kobe sem er orðinn 33 ára gamall.

Kobe Bryant hefur sterk tengsl við Ítalíu því faðir hans lék þar sem atvinnumaður frá 1984-91 (með Rieti, Reggio Calabria, Pistoia og Reggiana) og Bryant eyddi þar æskuárum sínum. Kobe kann því tungumálið og þekkir menninguna sem ætti að koma sér vel.

Virtus er einnig að sækjast eftir þjónustu Argentínumannsins Manu Ginobili sem spilaði með félaginu áður en hann fór til San Antonio Spurs.



NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×