Körfubolti

Kobe Bryant: Miklar líkur á því að ég spili á Ítalíu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kobe Bryant.
Kobe Bryant. Mynd/AP
Kobe Bryant, leikmaður Los Angeles Lakers, er greinilega mjög spenntur fyrir því að spila með ítalska félaginu Virtus Bologna á meðan verkfall NBA-deildarinnar stendur. Bryant hefur fengið mörg mismundandi tilboð frá ítalska liðinu og getur valið sér að spila einn leik, taka mánuð, tvo mánuði eða spila jafnvel allt tímabilið á norður Ítalíu.

Ítalska blaðið Gazzetta dello Sport hefur það eftir Kobe Bryant, sem er staddur í kynningarferð á Ítalíu á vegum styrktaraðila síns, að það séu miklar líkur á því að hann spili á Ítalíu og að honum líði eins og heima hjá sér þegar hann er á Ítalíu.

„Það eru miklar líkur á því að ég spili á Ítalíu á meðan verkfallinu stendur og þarna yrði draumur að rætast fyrir mig. Ég hef verið að skoða þetta og ræða málin undanfarna daga. Þetta lítur vel út og það eru góðar fréttir fyrir mig," sagði Kobe Bryant.

Heimsþekkt ítalskt fyrirtæki er tilbúið að borga brúsann en Kobe getur valið úr ýmsum tilboðum. Hann getur fengið fimm milljónir dollara samning fyrir allt tímabilið en það er einnig í boði að fá tvær milljónir dollara fyrir tvo mánuði, 1,3 milljónir dollara fyrir einn mánuð eða 900 þúsund dollara fyrir einn leik.

Kobe Bryant hefur sterk tengsl við Ítalíu því faðir hans lék þar sem atvinnumaður frá 1984-91 og Bryant eyddi þar æskuárum sínum. Kobe kann líka tungumálið sem er mikill kostur.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×