Íslenski boltinn

Málfríður: Komum trylltar inn í seinni hálfleikinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Málfríður Sigurðardóttir, fyrirliði Vals, tók við bikarnum eftir að Valskonur unnu 2-0 sigur á KR í bikarúrslitaleik kvenna á Laugardalsvellinum í kvöld. Þetta er fyrsti stóri bikarinn sem Málfríður tekur á móti en hún er á sínu fyrsta ári sem fyrirliði liðsins.

„Þetta er æðislegt og það er mjög gaman að fá að lyfta bikarnum," sagði Málfríður Sigurðardóttir kát eftir leikinn.

„Svona bikarúrslitaleikir eru alltaf jafnir og þetta var bara hörkuleikur. Við enduðum fyrri hálfleikinn mjög illa en við ætluðum að koma brjálaðar inn í seinni hálfleikinn og það gekk," sagði Málfríður.

„Við ákváðum bara að koma trylltar inn í seinni hálfleikinn því við ætlum að koma með eina dollu heima á Hlíðarenda í sumar. Við getum nefnilega eiginlega kvatt Íslandsbikarinn sem er nánast farinn yfir í Garðabæinn," sagði Málfríður.

„Það er ekki slæmt að taka bikarinn þrjú ár í röð og þetta er að ég held í fyrsta sinn sem kvennalið Vals vinnur bikarinn þrjú ár í röð," sagði Málfríður en Valskonur voru að vinna bikarinn í þrettánda sinn.

„Ég hef orðið nokkrum sinnum bikarmeistari áður og ég man það að ég var bikarmeistari í fyrsta sinn 2001 og hélt því upp á tíu ára afmæli þess titils í dag. Þetta var sætt," sagði Málfríður og á meðan er von um að vinna Íslandsmeistarabikarinn þá heldur Valsliðið áfram.

„Við klárum alla leiki sem eigum eftir og svo er það Evrópukeppnin sem bíður okkar. Við höldum áfram því það er nóg eftir af sumrinu hjá okkur," sagði Málfríður en það má sjá allt viðtalið með því að smella hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×