Íslenski boltinn

KR stöðvaði sigurgöngu Grindavíkurliðsins

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Katrín Ásbjörnsdóttir var á skotskónum með KR í kvöld.
Katrín Ásbjörnsdóttir var á skotskónum með KR í kvöld. Mynd/Anton
KR-konur unnu 2-1 sigur á Grindavík í afar mikilvægum leik í fallbaráttu Pepsi-deildar kvenna sem fram fór á KR-vellinum í kvöld. Liðin voru jöfn að stigum fyrir leikinn í 8. og 9. sæti deildarinnar en með þessum sigri slapp KR-liðið úr allra mestu fallhættunni.

Grindavíkurliðið var búið að vinna þrjá síðustu leiki sína, á móti Aftureldingu, Breiðabliki og Þrótti, eftir að hafa leikið ellefu fyrstu leiki sumarsins án þess að fagna sigri.

Katrín Ásbjörnsdóttir kom KR í 1-0 eftir aðeins fimm mínútur og Olga Kristina Hansen bætti síðan við marki rétt fyrir hálfleik. Shaneka Gordon minnkaði muninn fyrir Grindavík á 58. mínútu en áður hafði KR-ingurinn Ólöf Gerður Ísberg skotið í slánna úr vítaspyrnu.

KR-liðið átti eftir að klikka á annarri vítaspyrnu því Lilja Dögg Valþórsdóttir skaut í stöng á 75. mínútu. KR náði engu að síður að landa mikilvægum sigri og stíga skref í átt að því að halda sæti sínu í deildinni.

Upplýsingar um markaskorara eru fengnar af vefsíðunni fótbolti.net.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×