Íslenski boltinn

Þróttur á leið niður en FH upp

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Þróttarar eru á leið í 1. deildina á ný.
Þróttarar eru á leið í 1. deildina á ný. Mynd/Daníel
Þróttur er í slæmri stöðu á botni Pepsi-deildar kvenna en liðið tapaði í dag fyrir Fylki, 2-1. FH-ingar eru á leið upp úr 1. deildinni eftir stórsigur á grönnum sínum í Haukum.

FH vann 8-1 sigur á Haukum í fyrri leik liðanna í umspili um sæti í Pepsi-deildinni á næstu leiktíð.

Í hinum umspilsleiknum vann Keflavík 3-2 sigur á Selfossi og er því meiri spenna í því einvígi fyrir síðari leikinn.

Kristrún Kristinsdóttir og Laufey Björnsdóttir skoruðu mörk Fylkis í dag en síðara markið kom úr vítaspyrnu. Margrét María Hólmarsdóttir skoraði fyrir Þrótt, einnig úr vítaspyrnu.

Kristrún fékk svo að líta rauða spjaldið þegar um stundarfjórðungur var til leiksloka.

Þróttur er með sex stig á botninum þegar þrjár umferðir eru óleiknar. Liðið er sjö stigum frá öruggu sæti.

Grindavík er svo í næstneðsta sætinu með tíu stig en liðið tapaði fyrir KR í gær í miklum fallslag.

Upplýsingar um markaskorara frá fótbolti.net.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×