Íslenski boltinn

Berglind: Þarf allt að smella og þær að eiga smá slæman dag

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Berglind Bjarnadóttir leikmaður KR segir allt þurfa að ganga upp hjá KR og Valur að eiga slæman dag til þess að Vesturbæjarliðið eigi möguleika. Hún er spennt fyrir bikarúrslitaleiknum.

„Það er smá stress en ég er líka mjög spennt. Ég hef aldrei spilað áður á Laugardalsvelli þannig að þetta er stór stund.“

Berglind þekkir ágætlega til Valsliðsins en hún var á mála hjá þeim áður en hún skipti í KR fyrir tímabilið.

„Já, eitthvað aðeins. Ég æfði með þeim fyrir einu og hálfu ári, fékk félagaskipti í Val en skipti svo aftur yfir í KR fyrir tímabilið. Svo hef ég líka spilað oft á móti þeim þannig að við þekkjumst vel.“

Valsliðið er mjög vel mannað og Hlíðarendastelpur verða að teljast sigurstranglegri. Berglind segir KR-liðið þó eiga möguleika.

„Það verður erfitt en það er hægt. Það verður allt að smella og þær kannski að eiga smá slæman dag. En það er allt hægt.“

Það er stutt á milli leikja hjá liðunum en leikið var í Pepsi-deildinni á þriðjudag.

„Við vorum auðvitað bara að klára leikinn úti í Eyjum. Erum búin að taka eina æfingu síðan og eina í viðbót fyrir leik. Það er stutt á milli leikja og ekki hægt að breyta mikið útaf vananum.“

Karlalið KR skellti sér í keilu í undirbúningi sínum fyrir bikarúrslitaleikinn gegn Þór um síðustu helgi, sem vannst. Skyldu KR-stelpur ætla að gera eitthvað svipað?

„Við erum reyndar að fara í keilu í kvöld. Ég vissi reyndar ekki að þeir hefðu farið í keilu. Þetta kom bara upp í fyrradag og við ætlum að skella okkur í keilu.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×