Körfubolti

Dallas komið í 3-2 eftir sigur á Miami í nótt

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Nowitzki í baráttunni í nótt
Nowitzki í baráttunni í nótt Mynd/AFP
Dallas Mavericks sigraði Miami Heat 112-103 í fimmtu viðureign liðanna í úrslitum NBA körfuboltans í nótt. Leikið var í Dallas. Dallas leiðir 3-2 í einvíginu en sjötti og mögulegur sjöundi leikur fara fram í Miami.

Enn var það Dirk Nowitzki sem fór fyrir sínu liði. Þjóðverjinn skoraði 29 stig í leiknum. Nowitzky sagði sigurinn mikilvægan.

„Við vildum ekki fara til Miami vitandi að þeir hefðu tvo möguleika til þess að klára dæmið. Nú þurfum við að líta á leikinn á sunnudaginn sem sjöunda leik. Megum ekki gefa frábæru liði Miami neina von."

Nowitzky segist að mestu búinn að ná sér af þeim veikindum sem hafa hráð hann að undanförnu. Veikindin virðast þó hafa haft lítil áhrif á frammistöðu kappans á vellinum.

Dwyane Wade var stigahæstur hjá Miami með 23 stig. Lebron James átti 10 stoðsendingar, tók 10 fráköst auk þess að skora 17 stig.

„Þeir eru besta sóknarlið deildarinnar og erfitt að verjast þeim. Þeir hafa yfirhöndina eftir tvo sigurleiki í röð á heimavelli sínum. Allir leikirnir hafa verið jafnir. Við förum í næsta leik og gerum allt sem til þarf til þess að vinna. Við höfum sjálfstraustið í það," sagði Wade við blaðamenn.

Sjötti og mögulega sjöundi leikur liðanna fara fram í Miami í Flórída.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×