Körfubolti

Dallas Mavericks NBA-meistarar árið 2011

Stefán Árni Pálsson skrifar
Dallas Mavericks NBA-meistarar árið 2011. Mynd. / AP
Dallas Mavericks NBA-meistarar árið 2011. Mynd. / AP
Dallas Mavericks varð í nótt NBA meistari eftir að hafa unnið Miami Heat, 105-95, í sjötta leik liðanna og því sigraði Dallas 4-2 í úrslitaeinvíginu.

Dallas hafði ákveðið frumkvæði allan leikinn þó svo að þeirra aðal stjarna Dirk Nowitzki hafi ekki fundið sig í fyrri hálfleik leiksins en hann hitti aðeins úr 1/12, en ákveðnir leikmenn stigu þá upp og léku eins og sannir meistarar.

Jason Terry, leikmaður Dallas, átti magnaðan leik og gerði 27 stig og JJ Barrea átti einnig frábæran leik og gerði 15 stig.

Jason Kidd stýrði leik Dallas eins og herforingi og var gríðarlega mikilvægur fyrir liðið í úrslitaeinvíginu.

Dirk Nowitzki kom sá og sigraði í fjórða leikhlutanum og steig upp, en Þjóðverjinn endaði leikinn með 21 stig og 11 fráköst.

Dallas liðið sýndi frábæra liðsheild í leiknum í gær og einbeitingin skein úr augum allra leikmanna liðsins.

Í lok fjórða leikhluta voru það sóknarfráköstin sem reyndust dýrmæt fyrir gestina í Dallas en þeir náðu að éta upp klukkuna með því að hirða fráköst.

Lykilmenn Miami Heat náðu sér ekki nægilega vel á strik á meðan flest allir leikmenn Dallas Mavericks skiluðu sínu.

Margir leikmenn Dallas liðsins hafa verið lengi í deildinni án þess að vinna titilinn en Jason Kidd var á sínu 17. tímabili, hafði tvisvar áður komist í úrslitaeinvígi en loksins fékk þess snjalli leikstjórnandi hringinn fræga.

Dirk Nowitzki og Jason Terry tóku báðir þátt í úrslitaeinvíginu gegn Miami Heat árið 2006 þegar liðið tapaði 4-2, en þeir náðu loks að vinna fyrsta NBA-meistaratitil í sögu félagsins.

Verðmætasti leikmaður úrslitaeinvígisins var að sjálfsögðu valinn Dirk Nowitzki sem hefur skráð sig í sögubækurnar sem einn allra besti sóknarmaður allra tíma.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×