Körfubolti

Þjóðverjar fagna árangri Nowitzki

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Nowtizki og Jason Kidd fagna í Miami
Nowtizki og Jason Kidd fagna í Miami Mynd/Getty Images
Aldrei þessu vant komst körfubolti á forsíðu íþróttablaðs Bild, mest lesna dagblaðs Þýskalands, í gær. Ástæðan að sjálfsögðu sigur Dallas Mavericks í NBA-körfuboltanum með Þjóðverjann Dirk Nowitzki fremstan í flokki. Reuters fréttastofan fjallar um málið.

Dallas vann úrslitaleinvígið gegn Miami 4-2 og var Nowitzki valinn besti leikmaður úrslitaeinvígisins.

Árangur Nowitzki var settur á stall með stærstu sigrum þýskrar íþróttasögu; Fyrsti heimsmeistaratitill karlaliðs þjóðarinnar í knattspyrnu árið 1954, heimsmeistaratitill Max Schmeling í hnefaleikum, sigur Boris Becker á Wimbledon árið 1985 auk sigurs Jan Ulrich í Frakklands-hjólreiðunum 1997.

Joachim Löw, þjálfari þýska karlalandsliðsins í knattspyrnu var meðal þeirra sem hrósuðu árangri Nowitzki.

„Frammistaða hans var stórkostleg. Hann er einstakur og einn fremsti íþróttamaður þjóðarinnar. Titillinn er hápunkturinn á stórkostlegum körfuboltaferli hans í Bandaríkjunum.“

Þjóðverjar urðu Evrópumeistarar í körfuknattleik árið 1993. Síðan þá hefur verið lítið um sigra í íþróttinni til þess að fagna þar til nú.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×