Körfubolti

Kidd elsti leikstjórnandinn til þess að vinna NBA

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Nowitzki, Kidd, Perry og Marion fagna NBA-titlinum í Miami
Nowitzki, Kidd, Perry og Marion fagna NBA-titlinum í Miami Mynd/AP
Með NBA-meistaratitli Dallas Mavericks varð Jason Kidd elsti leikstjórnandi meistaraliðs í sögu deildarinnar. Kidd sem er 38 ára bætti aldursmet Ron Harper frá árinu 2000.

Dirk Nowitzki hefur kallað Kidd „Steingervinginn" og Shawn Marion sagt hann fimmtugan. Það var hins vegar ekki að sjá í úrslitaeinvíginu gegn Miami að á ferðinni væri gamalmenni.

Fyrir úrslitaeinvígið hafði Kidd bætt met Ron Harper sem elsti leikstjórnandi liðs í úrslitaeinvígi NBA. Ron Harper setti metið árið 2000 með Los Angeles Lakers og bætti um betur en liðið landaði titlinum. Stóra spurningin var hvort Kidd tækist hið sama.

Kidd komst tvívegis í úrslit með New Jersey Nets á sínum tíma en beið lægri hlut í bæði skiptin. Fyrst gegn Lakers árið 2002 og síðan gegn San Antonio Spurs árið 2003.

Tímabilið í ár var hans sautjánda í NBA-deildinni. Hann hefur spilað 1267 leiki í sjálfri deildarkeppninni og 142 leiki í úrslitakeppninni. Leikjahæstur í deildinni er Robert Parish með 1611 leiki en hann spilaði þar til hann varð 43 ára. Robert Horry á metið yfir flesta leiki í úrslitakeppni, 244 leikir.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×