Körfubolti

Spænska undrabarnið Rubio spilar í NBA-deildinni á næsta tímabili

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ricky Rubio.
Ricky Rubio. Mynd/AP
Spænski bakvörðurinn Ricky Rubio er bara tvítugur en það eru samt liðin tvö ár síðan að Minnesota Timberwolves valdi hann í nýliðavali NBA-deildarinnar. Rubio hefur ekki viljað koma til Bandaríkjanna fyrr en nú en hann hefur samþykkt að spila með Timberwolves-liðinu á næsta tímabili.

Rubio hefur spilað tvö síðustu tímabil með Regal Barcelona liðinu og er enn að í úrslitakeppninni á Spáni. Hann var með 6,5 stig og 3,2 stoðsendingar að meðaltali í Euroleague í vetur en gat ekki beitt sér að fullu vegna meiðsla á fæti.

Rubio var algjört undrabarn, varð atvinnumaður fjórtán ára og vakti mikla athygli með spænska landsliðinu á Ólympíuleikunum í Peking 2008 þar sem spænska landsliðið vann silfur. Rubio var síðan með 5,9 stig og 3,9 stoðsendingar að meðaltali á 22,7 mínútur þegar Spánverjar urðu Evrópumeistarar 2009.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×