Veiði

Laxarnir farnir að bylta sér í Blöndu og Norðurá

Trausti Hafliðason skrifar
Norðurá opnar 5. júní
Laxarnir eru byrjaðir að bylta sér í Blöndu. Meira vatn er í Norðurá en á sama tíma í fyrra. Talsmenn Stangaveiðifélags Reykjavíkur og Lax-á eru bjartsýnir og Veiðimálastofnun býst við góðri laxveiði í sumar.

Aðeins örfáir dagar eru í að laxveiðitímabilið byrji. Veiði hefst í Norðurá og Blöndu á sunnudaginn en báðar þessar ár voru á meðal aflhæstu áa síðasta sumar. Í Norðurá veiddust 2.279 laxar á fjórtán stangir en í Blöndu veiddust 2.777 laxar á átta stangir.Haraldur Eiríksson, markaðs- og sölufulltrúi SVFR, er bjartsýnn á góða veiði í Norðurá í sumar.

„Auðvitað er erfitt að spá fyrir um veiðina," segir Haraldur. „Það er samt óhætt að segja að menn séu almennt bjartsýnir. Það er allavega búið að selja öll veiðileyfin í ánna í júní. Jákvæðu tíðindin, hvað opnuna snertir, er að það virðist vera nóg af vatni í ánni. Í fyrra var það einmitt vatnsleysið sem gerði mönnum erfitt og fyrir og það olli því að opnunin var frekar döpur þó nóg væri af fiski í ánni."





Stefán Sigurðsson með flottann lax í Blöndu
Stefán Sigurðsson, hjá Lax-á, verður sjálfur í Blöndu við opnunina. Hann segir að vel hafi gengið að selja veiðileyfi í ánna og líkt og Haraldur segist hann vongóður um að veiðin í Blöndu verði góð í sumar enda hafi síðustu tvö ár verið metár.

„Blanda er ein allra sterkasta júní-áin og það er óhætt að segja að maður sé spenntur. Ég hef lítið sofið undanfarnar nætur enda hugurinn kominn á árbakkann," segir Stefán. „Í fyrra sáum við engan lax fyrr en kvöldið fyrir opnunina. Nú hafa menn aftur á móti þegar komið auga á lax og enn nokkrir dagar til stefnu – það veit á gott. Oftast hafa veiðst á bilinu 10 til 18 laxar við opnuna. Í fyrra voru þeir hins vegar 40, allt stórlaxar. Það er því ekki að ástæðulausu að maður liggur andvaka."

Höskuldur B. Erlingsson, lögreglumaður og leiðsögumaður í Blöndu, sendi forsvarsmönnum Lax-á tölvupóst í fyrradag en þá var hann nýkominn úr „vettvangsferð" í Blöndu.

„Ég tyllti mér á brúnina fyrir ofan Damminn og sat þar í nokkra stund," skrifar Höskuldur. „Þá bylti sér fallegur 2 ára lax í miðjum Damminum. Silfurbjartur og fallgur og á að giska 12-14 pund. Annað sá ég ekki en ég neita því ekki að hjartað tók kipp. Svo í morgun (gærmorgun) þá ákvað ég að kíkja aftur og gá hvort að ég yrði var við eitthvað líf. Og viti menn 2 laxar lágu neðst á klöppinni fyrir ofan flúðirnar í Damminum."

Í ársskýrslu Veiðimálastofnunar sem kynnt var á aðalfundi stofnunarinnar í byrjun maí er farið yfir veiðihorfurnar fyrir sumarið. Í skýrslunni segir að á síðustu þremur árum hafi stangveiði náttúrulegra laxa verið sú mesta frá því skráningar hófust. Í fyrra hafi laxinn almennt gengið fyrr í árnar en árin þar á undan og að von sé til að svo verði áfram og að viðsnúningur hafi orðið á göngutíma.

„Sveiflur hafa ávallt verið í veiði á laxi og fylgjast yfirleitt að nokkur góð ár og nokkur slæm þar til viðsnúningur verður," segir í skýrslunni. „ Í ljósi þess má búast við að stangveiðin sumarið 2011, úr náttúrúlegum laxastofnum, verði áfram góð og verði vel yfir meðalstangveiði. Sleppingar gönguseiða í hafbeitarár voru áfram umtalsverðar á síðasta ári og því líkur til að veiði í þeim verði áfram umtalsverð. Í þeim ám ræðst fiskgengd af fjölda slepptra seiða ásamt endurheimtuhlutfalli úr sjó en það fylgist að verulegu leyti að við endurheimtuhlutfall á náttúrulegum laxi."

Þar sem laxveiðin er formlega að ganga í garð er ágætt að brýna það fyrir veiðimönnum að skrá veiðina samviskusamlega í veiðibækur. Slíkt er mjög mikilvægt til öflunar á þekkingu um ástand fiskstofna og nýtingu þeirra.






×