Körfubolti

Kidd elsti bakvörðurinn til að byrja í lokaúrslitum NBA

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jason Kidd.
Jason Kidd. Mynd/AP
Úrslitaeinvígi NBA-deildarinnar í körfubolta hefst í kvöld þegar Dallas Mavericks sækir lið Miami Heat heim. Jason Kidd, leikstjórnandi, Dallas-liðsins er kominn í lokaúrslitin í þriðja sinn á ferlinum og hann mun setja met á fyrstu sekúndu leiksins í kvöld sem verður í beinni á Stöð 2 Sport klukkan eitt í nótt.

Jason Kidd er nýorðinn 38 ára gamall og verður í kvöld elsti bakvörður sem hefur byrjað leik í lokaúrslitum NBA-deildarinnar. Hann bætir þar ellefu ára met Ron Harper sem var 36 ára þegar hann var í byrjunarliði Los Angeles Lakers 2000.

Dirk Nowitzki kallar Kidd steingerving og Shawn Marion segir hann sé næstum því fimmtugur en Jason Kidd hefur engu að síður verið lykilmaður í frábærri spilamennsku Dallas-liðsins í úrslitakeppninni.

Kidd er með 9,9 stig, 7,7 stoðsendingar og 2,2 stolna bolta að meðaltali í úrslitakeppninni og er að hitta betur úr þriggja stiga skotum en í deildarkeppninni þar sem hann skoraði 7,9 stig að meðaltali í leik. Kidd var með 9,6 stig, 8,8 stoðsendingar og 3,4 stolna bolta í leik í einvíginu á móti Oklahoma City Thunder í úrslitum Vesturdeildarinnar.

Kidd vonast líka til að bæta annað met Harper sem er að verða elsti byrjunarliðsmaður sem hefur orðið NBA-meistari. Harper á það met frá því að hann varð meistari með Lakers fyrir ellefu árum.





NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×