Körfubolti

Terry ætlar að taka af sér bikar-tattúið ef Dallas tapar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jason Terry.
Jason Terry. Mynd/AP
Jason Terry vakti athygli í síðustu viku þegar upp komst að hann væri búinn að láta tattúera NBA-bikarinn á upphandleginn á sér en Terry hefur aldrei náð því að vera NBA-meistari. Terry og félagar í Dallas Mavericks eru komnir alla leið í úrslitaeinvígið á móti Miami Heat og er fyrsti leikur einvígisins í Miami í kvöld.

„Ég geri mér vel grein fyrir því að það verður verra að taka þetta af en að setja þetta á," sagði Terry sem ætlar að taka tattúið af ef að Dallas tapar í úrslitaeinvíginu.  „Ég er mjög hjátrúarfullur maður," svaraði Terry um ástæður þess að hann myndi taka tattúið af sér.

Terry fékk sér þetta húðflúr 19. október síðastliðinn en það var liðsfélagi hans, DeShawn Stevenson, sem hefur fjölda húðflúra á sér, bauð honum þá þjónustu einka-húðflúrara síns.

„Þetta táknaði bara það að við áttum raunhæfa möguleika á því að fara alla leið. Ef ég hefði ekki talið okkur eiga möguleika á titlinum í ár þá hefði ég aldrei samþykkt að fá mér svona tattú," sagði Terry sem er eini leikmaður Dallas ásamt Dirk Nowitzki sem var líka í liðinu þegar Dallas tapaði fyrir Miami í lokaúrslitum 2006.

„Það eru allir að spá því að Miami vinni þetta einvígi og við vitum það. Það skiptir samt ekki máli fyrir okkur því við erum einbeittir. Við viðum hvert verkefnið er og við vitum hvernig við eigum að klára það," sagði Terry sem hefur skorað 17,3 stig að meðaltali í leik í úrslitakeppninni og er búinn að hitta úr 46 prósent þriggja stiga skota sinna.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×