Körfubolti

NBA: Bosh í stuði þegar Miami komst í 2-1 á móti Chicago

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Chris Bosh var flottur í nótt.
Chris Bosh var flottur í nótt. Mynd/AP
Miami Heat hélt sigurgöngu sinni áfram á heimavelli í úrslitakeppni NBA-deildarinnar í körfubolta í nótt þegar liðið vann 98-85 sigur á Chicago Bulls í þriðja leik liðanna í úrslitum Austurdeildarinnar. Miami er komið í 2-1 og vantar tvo sigra til viðbótar til þess að komast í lokaúrslitin.

Chris Bosh átti frábæran leik í nótt en hann skoraði 34 stig og hitti úr 13 af síðustu 15 skotum sínum eftir að hafa klikkað á þeim þremur fyrstu.

„C-B var heitur og þegar einhver er kominn í stuð í okkar liði þá höldum við áfram að fara til hans," sagði LeBron James og Dwyane Wade var líka ánægður með Bosh.

„Chris er fagmaður og heldur alltaf áfram. Hann er búinn að spila frábærlega fyrir okkur í þessari seríu," sagði Wade.





Derrick Rose reynir hér að verjast Dwyane Wade í nótt.Mynd/AP
LeBron James var með 22 stig og 10 stoðsendingar og Dwyane Wade skoraði 17 stig og tók 9 fráköst. Carlos Boozer var með 26 stig og 17 fráköst hjá Chicago og Derrick Rose bætti við 20 stigum.

Miami tapaði fyrsta leiknum í einvíginu stórt en hefur nú unnið tvo leiki í röð. Heat-liðið á næsta leik einnig á heimavelli þar sem liðið hefur unnið alla sjö leiki sína í úrslitakeppninni.

„Þetta er auðvitað pirrandi. Við vorum ekki nógu ákveðnir í kvöld og þeir fundu aftur leiðina að sigri," sagði Derrick Rose.

„Við fráköstuðum vel en lokuðum ekki nógu vel á skotin þeirra," sagði Tom Thibodeau, þjálfari Chicago.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×