Körfubolti

Ekkert hlustað á Kobe þegar Mike Brown var ráðinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kobe Bryant.
Kobe Bryant. Mynd/AP
Bandarískir fjölmiðlamenn eru að hneykslast á því í dag að forráðamenn Los Angeles Lakers hafi ekkert talað við Kobe Bryant, aðalstjörnu liðsins, áður en þeir réðu Mike Brown, fyrrum þjálfara Cleveland, sem eftirmann Phil Jackson. Brown var ráðinn þjálfari Lakers í nótt og Bryant fékk í framhaldinu sms-skilaboð um að hann væri kominn með nýjan þjálfara.

Kobe Bryant er aðalstjarna Lakers og hefur þegar unnið fimm meistaratitla með liðinu. Það hefur verið venjan að risastjörnur NBA-liðanna hafa verið með í málum þegar félögin eru að leita sér að nýjum þjálfurum. Þeir ráða kannski ekki hver tekur við en fá að koma með sína skoðun.

Jim Buss, sonur eigandans, er varaforseti Lakers og stjórnar nú öllu hjá félaginu og hann vildi ekkert að Kobe kæmi nálægt því þegar nýr þjálfari var ráðinn.

Kobe er víst ekkert alltof spenntur fyrir Mike Brown þótt að hann hafi ekki sagt neitt um það opinberlega en Bryant vildi helst að Brian Shaw, aðstoðarmaður Phil Jackson, fengi tækifæri til að þjálfa Lakers-liðið.

Það er því strax komin gjá á milli eiganda, þjálfara og aðalstjörnu Lakers-liðsins og það verður spennandi að sjá hvenær og hvernig hún verður brúuð.



NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×