Körfubolti

NBA: Chicago Bulls þarf aðeins einn sigur í viðbót

Joakim Noah og Derrick Rose hafa verið öflugir fyrir Bulls í úrslitakeppninni. Mynd. / Getty Images
Joakim Noah og Derrick Rose hafa verið öflugir fyrir Bulls í úrslitakeppninni. Mynd. / Getty Images
Chicago Bulls er aftur komið í bílstjórasætið í einvíginu gegn Atlanta Hawks í undanúrslitum Austurdeildarinnar í NBA-deildinni. Bulls sigraði Atlanta Hawks, 95-83, í fimmta leik liðanna og leiða því einvígið 3-2, en alls þarf að vinna fjóra leiki til að komast í næstu umferð.

Stemmningin var frábær í United Center í Chicago og það virtist gefa heimamönnum mikinn kraft. Leikurinn var samt sem áður mjög svo jafn nánast allan leiktímann en í fjórða leikhlutanum setti Bulls í fimmta gírinn.

Derrick Rose, leikmaður Chicago Bulls, var heldur betur drjúgur fyrir heimamenn í gær en hann skoraði 33  stig, þar af 13 í fjórða leikhlutanum, og gaf 9 stoðsendingar.

„Við sýndum alvöru varnarleik í kvöld og þá ræður Atlanta ekkert við okkur. Það voru allir að leggja sitt af mörkum í þessum leik og við fengum mikla hjálp af bekknum“.

„Núna þurfum við bara að fara til Atlanta og sýna svona spilamennsku, þá vinnum við einvígið og fáum kannski smá hvíld fyrir næsta einvígi,“ sagði Derrick Rose í sjónvarpsviðtali strax eftir leikinn í gær.

Luol Deng, leikmaður Chicago Bulls, átti einnig frábæran leik en hann gerði 23 stig.

Bulls vantar því aðeins einn sigur í viðbót til að komast í úrslitaeinvígi Austurdeildarinnar, en það lið sem vinnur þessa viðureign mætir annaðhvort Miami Heat eða Bostin Celtics.

Jeff Teague, leikmaður Atlanta Hawks, var atkvæðamestur hjá gestunum með 21 stig, en rétt eftir honum kom Josh Smith með 16 stig.

Næsti leikur fer fram í Atlanta aðfaranótt föstudags og þá eru að duga eða drepast fyrir Atlanta Hawks en tapi liðið þeim leik er liðið komið í sumarfrí.



 

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×