Körfubolti

NBA í nótt: Memphis fékk oddaleik

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Zach Randolph átti enn einn stórleikinn fyrir Memphis í nótt.
Zach Randolph átti enn einn stórleikinn fyrir Memphis í nótt. Mynd/AP
Memphis jafnaði í nótt metin í rimmu sinni gegn Oklahoma City með sigri á heimavelli, 95-83, og knúði þar með fram oddaleik.

Oklahoma City hefði með sigri tryggt sér sæti í úrslitum Vesturdeildarinnar gegn Dallas en fær annað tækifæri til að koma sér þangað þegar liðin mætast í Oklahoma City á sunnudagskvöldið.

Leikmenn Dallas eru reyndar búnir að fá fína hvíld eftir að liðið sópaði LA Lakers úr úrslitakeppninni, 4-0.

Eins og svo oft áður í úrslitakeppninni var Zach Randolph gulls ígildi fyrir Memphis. Hann skoraði 30 stig og tók þrettán fráköst fyrir sína menn.

það var þó Oklahoma City sem byrjaði betur í leiknum en liðið var með undirtök í fyrri hálfleik. Memphis átti hins vegar frábæran seinni hálfleik og vann hann með samtals 22 stiga mun, 51-29.

Memphis varð í áttunda sæti í Vesturdeildinni en gerði sér lítið fyrir og sló út efsta liðið, San Antonio, í fyrstu umferð úrslitakeppninnar. Memphis vann því sinn sjöunda leik í úrslitakeppninni í nótt en ekkert lið í sömu stöðu hefur unnið svo marga leiki í úrslitakeppni Vesturdeildarinnar.

OJ Mayo skoraði sextán stig fyrir Memphis og Mike Conley ellefu stig og tólf stoðsendingar.

Russell Westbrook skoraði 27 stig fyrir Oklahoma City og James Harden fjórtán. Mestu munaði fyrir liðið að Kevin Durant, stigahæsti leikmaður NBA-deildarinnar, náði sér engan veginn á strik. Hann skoraði aðeins ellefu stig og nýtti aðeins þrjú af fjórtán skotum sínum utan af velli.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×