Körfubolti

NBA-spekingar bíða eftir svörum frá LeBron og Dwyane Wade í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
LeBron James og Dwyane Wade.
LeBron James og Dwyane Wade. Mynd/AP
LeBron James og Dwyane Wade fóru mikinn þegar Miami Heat sló Boston Celtics út 4-1 í undanúrslitum Austurdeildarinnar í NBA-deildinni í körfubolta á dögunum en þeir lentu báðir á vegg í fyrsta leiknum á móti Chicago Bulls í úrslitum Austurdeildarinnar.

Það bíða því margir spenntir að sjá hvernig þessir tveir frábæru leikmenn ætli að svara þessu í öðrum leiknum í Chicago í kvöld. Leikurinn verður í beinni á Stöð 2 Sport klukkan hálf eitt.

LeBron James skoraði 68 stig í síðustu tveimur leikjunum á móti Boston en var aðeins með 15 stig og 33 prósent skotnýtingu í fyrsta leiknum á móti Chicago þar sem honum gekk illa á móti Luol Deng.

Wade var með 30,2 stig í leik í seríunni á móti Boston en skoraði bara 6 af 18 stigum sínum í seinni hálfleik fyrsta leiksins. Staðan var 48-48 í hálfleik en Chicago vann seinni hálfleikinn með 21 stigi.

„Við höfum alltaf komið til baka á þessu tímabili og þá skiptir ekki máli hvort um er að ræða deildarkeppni eða úrslitakeppni. Við höfum ávallt lært af mistökum okkar og náð að halda áfram. Við bíðum nú spenntir eftir þessari áskorun og fáum aftur gott tækifæri til að stela heimavallarréttinum af þeim," sagði LeBron James kokhraustur.



NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×