Körfubolti

NBA í nótt: Orlando jafnaði metin

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Dwight Howard í leiknum í nótt. Jason Collins reynir að verjast honum.
Dwight Howard í leiknum í nótt. Jason Collins reynir að verjast honum. Mynd/AP
Orlando Magic jafnaði í nótt metin í rimmunni við Atlanta Hawks í fyrstu umferð úrslitakeppninnar í NBA-deildinni í körfubolta. Staðan er nú 1-1.

Tveir aðrir leikir fóru fram í deildinni í nótt en Boston og Dallas eru nú bæði komin með 2-0 forystu í sínum einvígum í úrslitakeppninni.

Orlando vann Atlanta, 88-82, þar sem að Dwight Howard skoraði 33 stig og tók nítján fráköst. Howard skoraði 46 stig í fyrsta leiknum en þá hafði Atlanta betur.

Jameer Nelson var með þrettán stig fyrir Orlando og Hedu Turkoglu tíu. Mestu munaði um 10-1 sprett liðsins í lok þriðja leikhluta en þá náði Orlando ellefu stiga forystu í leiknum.

Jamal Crawford var stigahæsti leikmaður Atlanta með 25 stig þó svo að hann hafi verið varamaður í leiknum. Josh Smith kom næstur með sautján.

Boston vann New York, 96-93, þrátt fyrir að Carmelo Anthony átti frábæran leik með New York. Báðir leikirnir í einvíginu hafa verið jafnir og spenanndi en rimman færist nú yfir til New York þar sem næstu tveir leikir fara fram.

New York náði að minnka forystu í Boston í eitt stig þegar nítján sekúndur voru eftir af leiknum en Kevin Garnett setti niður körfu þegar tólf sekúndur voru eftir sem dugði til að tryggja sigurinn.

Rajon Rondo skoraði 30 stig fyrir Boston, Paul Pierce 20 og Ray Allen átján.

Anthony skoraði 42 stig fyrir New York auk þess sem hann tók sautján fráköst. Toney Douglas kom næstur með fjórtán stig.

Dallas vann Portland, 101-89, en liðið skoraði 28 stig í fjórða leikhluta gegn sautján frá Portland.

Peja Stojakovic átti frábæra innkomu af bekknum fyrir Dallas en hann skoraði 21 stig. Dirk Nowitzky var þó stigahæstur með 33 stig.

LaMarcus Aldridge skoraði 24 stig fyrir Portland og var með tíu fráköst þar að auki.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×