Körfubolti

Kobe sektaður um 11 milljónir króna

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Kobe Bryant var í dag sektaður um ellefu milljónir króna fyrir að hreyta fúkyrðum að dómara sem gaf honum tæknivillu í leik LA Lakers gegn San Antonio Spurs í gær.

Leikurinn var sýndur beint í sjónvarpi í Bandaríkjunum og má sjá á meðfylgjandi upptöku að hann hafði niðrandi orð um dómarann. Ummæli Kobe voru ekki einungis niðrandi í garð dómarans heldur einnig um samkynhneigða sem hann hefur fengið mikil ámæli fyrir.

David Stern, forsvarsmaður NBA-deildarinnar, brást skjótt við og sektaði Bryant um 100 þúsund dollara eða rúmar ellefu milljónir króna. Sagði hann ummælin „móðgandi og óafsakanleg".

Bryant svaraði með yfirlýsingu í dag. „Það má ekki taka það sem ég sagði í gær bókstaflega. Ég brást við í hita leiksins, punktur. Orð mín endurspegluðu ekki viðhorf mitt gagnvart samkynhneigðum og voru ekki ætluð til að móðga neinn."

Hann ræddi svo enn frekar um málið í útvarpsþætti í gær þar sem hann sagði að hann hefði haft rangt við og það væri mikilvægt að hann viðurkenndi það.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×